Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

Mikil notkun þunglyndislyfja á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

[16:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í upphafi ágætrar ræðu málshefjanda var því slegið föstu að meiri áhersla hefði verið lögð á geðheilbrigðismál á undanförnum árum. Ég spyr mig: Er það svo? Kannski með vitundarvakningu hjá almenningi en varla hjá stjórnvöldum því að í skýrslu um geðheilbrigðismál frá Ríkisendurskoðun kemur bara skýrt fram að einungis 5% af heildarframlagi til heilbrigðismála er til geðheilbrigðismála þrátt fyrir að sá málaflokkur, geðheilbrigðismálin, sé u.þ.b. 25% af stóra málaflokknum. Frá því fyrir 15 árum hefur þetta fallið úr 8% í 5%. Það er í rauninni ekki hægt að draga aðra ályktun af því en að við séum beinlínis að vanrækja stórkostlega þessa sjúkdóma sem skerða lífsgæði þúsunda ef ekki tugþúsunda, snerta hverja einustu fjölskyldu í landinu og þegar verst lætur geta verið banvænir. Stefna í geðheilbrigðismálum hefur yfirleitt verið sett fram með mjög almennum hætti og nú síðast, í fyrsta skipti, í aðgerðaáætlun í geðheilbrigðisþjónustu til 2016–2020. Þar átti að skoða sérstaklega eflingu grunnþjónustu í nærumhverfi, forvarnir og snemmtæka íhlutun. Mjög mikilvægt allt saman en þó kemur fram í þessari sömu skýrslu að ekki hafi verið lagt formlegt mat á aðgerðaáætlunina og ekki heldur eftirfylgnina með framkvæmd hennar. Af því að ráðherra talaði um fjölbreytt úrræði og að afla gagna, væri þá ekki nærtækast að sami hæstv. ráðherra myndi nú kannski skoða athugasemdir ríkisendurskoðanda og láta eftirfylgni og skoðun fara fram á því hverju aðgerðaáætlunin hefur skilað?