Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á að vera kannski svolítið að endurtaka mig, ég ætlaði að fara út í aðra sálma, en ég held að það skipti máli að þetta liggi skýrt fyrir. Ég er ekki á neinn hátt að gera lítið úr því hvað stendur í inngangi þessarar skýrslu en þar segir hins vegar nema lög kveði á um annað, nema lög kveði á um að ríkisendurskoðandi skoði það og það er í 1. og 2. mgr. 16. gr. þar sem segir að ríkisendurskoðanda beri að vekja athygli á lögbrotum ef hann verður þeirra var. Það eru þau lög sem verið er að vísa til. Við vitum að það er ekki skýrt kveðið á um þetta í skýrslunni. Það er miður. En ríkisendurskoðandi segir sjálfur að hann hafi skoðað hæfið. Það var ekkert sem benti til að ráðherra þyrfti að skoða hæfi sitt hvað þetta varðar. Það eru orð ríkisendurskoðanda, það eru ekki mín orð. Mér þykir rétt að við ítrekum þetta einu sinni enn.