Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[17:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Þá hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lokið umfjöllun sinni um skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka og við munum öll hvernig viðbrögðin urðu í samfélaginu þegar í ljós kom hvernig til tókst. Það braust út mikil óánægja vegna útboðsins og krafan um viðbrögð var mjög hávær í samfélaginu, ekki síst eftir að listinn með kaupendum var birtur, enda kom í ljós út frá þeim lista að niðurstaða útboðsins var með allt öðrum hætti en rætt hafði verið um, m.a. fyrir þingnefndum í aðdraganda útboðsins.

Hér má til að mynda nefna að 22 keyptu hlutabréf fyrir innan við 10 millj. kr., þar af einn fyrir rétt rúma milljón. Þessir smáu hlutir voru svo seldir með afslætti, rétt eins og stærstu hlutirnir og þetta var eitt af því sem kom verulega á óvart. Það var líka mikið gagnrýnt að í kaupendahópnum voru aðilar sem erfitt er að sjá að falli undir skilgreininguna á hæfum fjárfesti, sem þó var eitt af skilyrðum þess að fá að taka þátt. Hér má vel halda til haga að skoðanakönnun sem var gerð skömmu eftir söluna leiddi í ljós að ríflega 80% þjóðarinnar voru ósátt við framkvæmdina. Krafan um sérstaka rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem færi ofan í alla anga þessa máls var fljótt hávær í samfélaginu en á hana var ekki hlustað. Þess í stað fól fjármálaráðherra Ríkisendurskoðun að fara yfir söluna, og þá skýrslu, ásamt umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ræðum við hér í dag.

Það var auðvitað alveg ljóst frá upphafi að ríkisstjórnarflokkarnir vildu ekki setja á fót rannsóknarnefnd heldur skoða stöðuna eftir að Ríkisendurskoðun skilaði af sér. Nokkrir stjórnarliðar sögðu að af eitthvað stæði út af og ef öllum steinum yrði ekki velt við þá væri sjálfsagt að virkja það úrræði. Tíminn hefur svo auðvitað leitt í ljós að það var mjög holur hljómur í slíkum fyrirheitum. Að mínu mati liggur alveg skýrt fyrir eftir skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að brýn þörf er fyrir að fara betur ofan í saumana á sölunni, eins og reyndar fyrirsjáanlegt var frá upphafi, í ljósi þess að Ríkisendurskoðun getur ekki farið yfir alla þætti og bendir reyndar á í skýrslunni að það falli utan við hlutverk hennar, með leyfi forseta, „að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun og embættinu ber að gæta varúðar að álykta almennt um túlkun og skýringar laga, enda er öðrum aðilum falið það hlutverk að lögum.“

Þegar því er haldið fram að nauðsynlegt sé að skoða málið frekar, ekki síst þegar litið er til stjórnsýslulaga og reglna, er ekki verið að gera lítið úr skýrslu Ríkisendurskoðunar heldur er einfaldlega verið að benda á, eins og sagt hefur verið allan tímann, að verk hennar var ekki tæmandi. Að því sögðu er skýrsla Ríkisendurskoðunar góð fyrir sinn hatt en inn í hana vantar auðvitað þætti sem fyrirsjáanlegt var og margoft hefur verið bent á.

Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans er enga afgerandi afstöðu að finna í skýrslunni um það hvort framkvæmd sölunnar hafi samrýmst lögum um sölu á eignarhlutum ríkisins eða lögum um Bankasýsluna. Þá er ekkert fjallað um hvort salan sé í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar, enda ekki gert ráð fyrir því í afmörkun stofnunarinnar á verkefninu. Þetta vissum við fyrir fram og bentum á, og þetta setur okkur í þá stöðu í dag að rannsókn og skoðun á þessu er ekki lokið, enn er talsvert verk að vinna. Það er síðan villandi eða jafnvel hrein afvegaleiðing að halda því fram að engin lög hafi verið brotin eins og ítrekað hefur verið gert af ráðherrum; fjármálaráðherra, forsætisráðherra og öðrum ráðherrum og eftir atvikum þingmönnum stjórnarliðsins hér í dag og í fyrri umræðum um þetta mál. Hér má auðvitað sérstaklega nefna að Tryggvi Gunnarsson, fyrrverandi umboðsmaður Alþingis, hefur bent á fyrir nefndinni, í viðtali og í opinberum talpunktum, að ekki sé fjallað um það í skýrslu Ríkisendurskoðunar hvort framkvæmdaraðilar útboðsins hafi gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar, svo sem rannsóknarreglum eða hæfisreglum, þrátt fyrir að þau lög eigi við um söluferlið. Þá sé heldur ekki fjallað um hvort skilyrði upplýsingalaga um skráningu gagna vegna stjórnvaldsákvarðana hafi verið uppfyllt, þrátt fyrir að í skýrslunni sé að finna margar ábendingar um skort á skráningu og skjalfestingu viðmiða og beitingu þeirra. Loks sé það ekki greint í skýrslunni hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við EES-reglur, til að mynda reglur um ríkisaðstoð. Yfir þetta er farið í nefndaráliti minni hlutans, sem almenningur og fjölmiðlar ættu auðvitað að lesa og kynna sér.

Þar er einnig vísað í viðbrögð ríkisendurskoðanda við þessu og ekki er hægt að ráða annað í þau orð en að málið sé alls ekki fullkannað, því hann segir þarna að Tryggvi Gunnarsson sé að velta upp spurningum um lögfræðileg úrlausnarefni sem vert er að gefa gaum en eru ekki í verkahring Ríkisendurskoðunar. Slík lögfræðileg úrlausnarefni gætu hæglega komið til skoðunar hjá rannsóknarnefnd Alþingis ásamt fleiru að sjálfsögðu, sem eftir atvikum væri hægt að koma í annan farveg ef þörf yrði á slíku. Þess má geta að minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði mikla áherslu á það í vinnu nefndarinnar að reyna að meta betur hvort salan hefði samræmst ákvæðum stjórnsýslulaga, m.a. með hliðsjón af afdráttarlausu mati Tryggva Gunnarssonar um að það hafi ekki verið gert í skýrslunni. Lögðum við fram tillögu þar sem óskað var eftir sjálfstæðu lögfræðiáliti sem fæli í sér mat á stjórnsýslulegum þætti sölunnar á hlut ríkisins í bankanum með tilliti til meðferðar valds og ákvarðanatöku við söluna. Í ljósi alls þess sem sagt var áður en skýrsla Ríkisendurskoðunar kom fram, þess sem kemur og kemur ekki fram í skýrslunni og þess sem kom fram í umfjöllun nefndarinnar, verður að teljast ákaflega misráðið hjá meiri hlutanum að fella þá tillögu og rímar það illa við þau fögru fyrirheit sem gefin voru á hinum ýmsu stigum máls um að velta við öllum steinum og rannsaka allt sem stendur út af ef með þyrfti. Það liggur fyrir að stjórnsýslulegur þáttur sölunnar stendur út af og hefur ekki verið skoðaður. Svo einfalt er það.

Þetta segir okkur auðvitað allt um það að meiri hlutinn vill ekki skoða tiltekna þætti sölunnar og það er mjög miður og ákaflega gagnrýnivert. Það er vont fyrir almenning í landinu og það er ákaflega vont veganesti inn í áframhaldandi söluferli. Reyndar sést það glögglega á nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lítið er fjallað um þau stjórnsýslulegu atriði sem brýnt er að fá svör við. Lítið er gert með þá skoðun fyrrverandi umboðsmanns Alþingis, Tryggva Gunnarssonar, að ekki sé fjallað um það af hálfu Ríkisendurskoðunar hvort gætt hafi verið að meginreglum stjórnsýsluréttar, svo sem rannsóknarreglu eða hæfisreglum, þrátt fyrir að þau lög eigi við um allt söluferlið. Þess í stað er bent á, sem er rétt og ætti auðvitað líka að vera rök fyrir frekari skoðun, að ýmsum atriðum og spurningum er velt upp í skýrslunni án þess að þeim sé beint svarað.

Meðal þess sem Ríkisendurskoðun vekur athygli á í skýrslunni er að undirbúningur og framkvæmd sölunnar voru ekki nægilega góð. Hugtakanotkun og upplýsingagjöf til þingsins drógu ekki upp skýra mynd af fyrirkomulaginu, ekki var tekið tillit til orðsporsáhættu, ekki gætt að gagnsæi og hlutlægni eða jafnræði, ekki var ekki skýrt hvað fólst í hugtakinu „hæfur fjárfestir“ og upplýsingagjöf til þings og almennings hefði átt að vera betri. Þá liggur ekki fyrir hvernig Bankasýslan beitti viðmiðum sínum við úthlutun og það var ekki búið að ákveða hvernig það yrði gert fyrir fram. Þar af leiðir að ekki liggur fyrir með skýrum hætti hvernig tilboð voru metin og fleiri athugasemdir er auðvitað að finna í skýrslunni, eins og við þekkjum, og þetta allt gefur þessu ferli auðvitað ekki fallega einkunn.

Eitt af því sem skoða þarf betur er að fá úr hæfi fjármálaráðherra skorið þegar hann samþykkti tilboðin, í ljósi þess að faðir hans var einn þeirra sem keypti hlut. Rétt er að taka fram að fjármálaráðherra hefur sagt hann hafi ekki vitað af þessu þegar hann samþykkti tilboðin. En það blasir auðvitað við þegar þessi staða er uppi, að til þess að eyða öllum vafa er nauðsynlegt að skera úr um hvort rétt hafi verið staðið að ákvörðuninni. Þetta getur ekki einhvern veginn legið óbætt hjá garði, það segir sig alveg sjálft. Með þessu er ég ekkert að segja til um hvor niðurstaðan yrði ofan á, þetta verður bara ofureinfaldlega að skoða og þá liggur það fyrir með skýrum hætti. Um þetta hverfist umræðan um hæfi samkvæmt stjórnsýslulögum.

Það er samt mikilvægt að horfa til viðskipta föður fjármálaráðherra vegna þess að í henni hverfist umræðan um hæfi samkvæmt stjórnsýslulögum, eins og ég sagði. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skulu samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutanna. Þetta segir í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og þess vegna þurfti umgjörðin, hvernig sem henni er háttað, að tryggja að ráðherra tæki ekki ákvörðun í máli sem hann teldist vanhæfur í. Svo ég árétti það þá er þetta sjálfsagt eitthvað sem ætti að vera algjört grundvallaratriði að skoða betur og ætti að vera algjörlega almenn regla, nákvæmlega sama hver á í hlut. Á þessu er ekki tekið í þeirri skýrslu sem við höfum verið að ræða hér undanfarnar vikur og mánuði.

Þetta er samt bara einn þáttur af mörgum sem misfórust við söluna. Við vitum líka að aðilar tengdir sölunni innan Íslandsbanka keyptu hluti. Það er eitthvað sem Bankasýslu og ráðuneytinu bar að setja skýr fyrirmæli um og ekki eru öll kurl komin til grafar í því máli, við bíðum enn þá eftir rannsókn Fjármálaeftirlitsins þegar kemur að ákveðnum þáttum í þessu öllu saman. Þá þarf einnig að skoða betur hvort gætt hafi verið að jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, til að mynda þegar kom að flokkun fjárfesta, sem var á forræði hvers fjármálafyrirtækis fyrir sig. Það liggur ekki fyrir hvort jafnræðis hafi verið gætt, enda liggur fyrir að reglur fyrirtækja eru mismunandi og Ríkisendurskoðun kannaði ekki hvort það hefði haft áhrif í þessu sambandi.

Svo verð ég að fá að segja, fyrir mitt leyti, að þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar er lesin með hliðsjón af 3. gr. laga um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þá vakna ýmsar spurningar. Lagagreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“

Lagagreinin tiltekur gagnsæi, hlutlægni, hagkvæmni og jafnræði. Skýrsla Ríkisendurskoðunar tiltekur sérstaklega að skort hafi á gagnsæi, hlutlægni og jafnræði, auk þess sem verulegur vafi leikur á að hæsta verð hafi fengist en vafalítið má þrátta um það út í hið óendanlega.

Þessi beini samanburður á skýrslunni og þeirri lagagrein sem er undir kallar auðvitað á frekari skoðun á því hvort lög hafi verið brotin því skýrslan er engan veginn skýr um það, sem hefur reyndar bæði komið fram hjá fulltrúum minni hluta og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í umræðunni hér í dag. Við eigum auðvitað ekki að forðast þessa skoðun. Við eigum að einhenda okkur í þá vinnu til að tryggja traustið áður en frekari sala á Íslandsbanka verður að veruleika. Það þarf til að mynda að leiða í ljós hverjir eru raunverulegir kaupendur á öllum hlutunum. Voru til að mynda allir þeir erlendu aðilar sem keyptu að gera það fyrir sig eða fyrir aðra sem vildu leyna aðkomu sinni að kaupunum? Hér hljótum við að halda því til haga að sporin hræða. Það kom ekki í ljós fyrr en áratugum eftir að Búnaðarbankinn var seldur að þýski bankinn, sem keypti stóran hlut, var leppur fyrir innlenda aðila. Það kom einmitt í ljós fyrir tilstilli sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis sem hafði heimildir sem ríkisendurskoðandi hafði ekki, en Ríkisendurskoðun hafði þá þegar gefið þeirri einkavæðingu heilbrigðisvottorð í tvígang. Þetta skiptir verulegu máli og þessu er ekki svarað í skýrslunni.

Svo vil ég fá að segja að traust er algjört lykilatriði þegar bankar eru seldir, ekki síst þegar íslenska ríkið selur banka, bæði vegna þess að við erum brennd eftir bankahrunið og einnig vegna þess að einkavæðingar ríkisins á Búnaðarbankanum og Landsbankanum um árið tókust ekkert sérstaklega vel, einkum einkavæðing Búnaðarbankans eins og ég fór yfir áðan. Það kemur skýrt fram í áliti minni hlutans að við teljum að öll skilyrði sem þurfi að uppfylla fyrir stofnun rannsóknarnefndar séu uppfyllt. Þar má nefna almennt mikilvægi málsins, sem varla verður deilt mikið um; undir er meðferð opinbers valds og mál sem varðar almannahagsmuni. Við vitum ekki enn með skýrum hætti hvort lög voru brotin og hvert umfang hugsanlegra brota er, þrátt fyrir að ýmislegt liggi fyrir um annmarka og klúður. Málið varðar embættisfærslur ráðherra sem bar ábyrgð á sölunni, auk þess sem við höfum rakið það ágætlega hér og í nefndarálitinu að fjölmörgum grundvallarspurningum er ósvarað, og þá vísa ég aftur í það sem Tryggvi Gunnarsson hefur sagt.

Það liggur alveg fyrir að hér hefur dýrmætur tími farið til spillis. Við eigum auðvitað að einhenda okkur í það að reyna að búa þannig um hnútana að það sé hægt að selja meira af bönkunum. Það skiptir verulegu máli fyrir ríkissjóð og gert er ráð fyrir því í þeim fjárlögum sem við samþykktum fyrir síðustu jól. Eftir allt sem á undan er gengið þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvers við erum bættari eftir þetta söluferli. Ríkissjóður fékk vissulega fjármuni, hann hefði mögulega getað fengið meira en fékk þó umtalsverða fjármuni, og losað var um eignarhlut ríkisins í bankakerfinu sem er auðvitað bara mjög gott. Traustið hins vegar fauk út um gluggann og það er ljóst að við erum ekki á réttri leið við endurheimta það. Það skiptir litlu máli að Bankasýslan hafi verið lögð niður og að finna eigi annað fyrirkomulag við söluna ef tilfinning fólks er sú að öll kurl séu ekki komin til grafar í þessari sölu. Þá er einboðið að fögur fyrirheit um frekari sölu falla niður dauð. Ég á a.m.k. erfitt með að ímynda mér að þessi ríkisstjórn, með VG innanborðs, leggi í frekari sölu á meðan svo mikið vantraust ríkir. Þetta er afleitt vegna þess að ríkið á um 300 milljarða virði í bönkum sem betur eru komnir í höndum einkaaðila, enda á ríkið ekki að keppa á þeim markaði til lengri tíma.

Ég er búinn að fara yfir sum þeirra sjónarmiða sem minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram í nefndaráliti en ég vil ljúka þessu með því að vitna í niðurlag nefndarálits meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar er því beint til ríkisstjórnarinnar að í nýju sölufyrirkomulagi verði lögð áhersla á gagnsæi, jafnræði, aðkomu Alþingis og upplýsingagjöf til almennings, og jafnframt tiltekið að traust sé grundvallarforsenda fyrir áframhaldandi sölu. Þetta eru fín lokaorð á nefndaráliti en mig langar að spyrja: Af hverju ættum við að treysta ríkisstjórninni til að halda þetta í heiðri núna þegar það liggur skjalfest fyrir í skýrslu að hún gat ekki haldið þetta í heiðri í síðustu sölu?