Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[18:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Aðeins meira um þetta. Ríkisendurskoðandi segir það rosalega skýrt að það sé ekki starf hans að eltast við lögfræðileg álitaefni. Á sama tíma, vissulega, segist hann ekki hafa orðið áskynja um lögbrot. Þarna er tvennt sem bara passar ekki saman. Það er ákveðið vandamál sem við eigum við að glíma. Það er alveg rétt í áliti meiri hlutans þar sem meiri hlutinn harmar að þetta sé ekki sagt, það sé ekki tekin skýrari afstaða þarna. Þess vegna er mjög skiljanlegt, myndi ég halda, að við reynum að fá skýra afstöðu til þessa því hún er ekki skýr. Annars vegar er sagt: Ég elti ekki lögfræðileg álitaefni og er ekkert að skoða þau neitt sérstaklega. Og svo hins vegar: Ég varð ekki neins áskynja sem ég var ekki að skoða hvort eð er. Þannig hljómar það. Ég fæ þetta tvennt ekki til að passa saman. Ég verð að glíma við báðar þessar athugasemdir og þær ganga ekki upp á sama tíma.

Annað sem hv. þingmaður sagði var að þetta væri eitt best lukkaðasta uppboð í Evrópu á undanförnum árum og ég skil það ekki heldur. Ef við eigum að taka mark á greiningu Ríkisendurskoðunar þá rekur skýrsla Ríkisendurskoðunar brotalamir á hverjum einasta stað í ferlinu, alveg frá tilmælum ráðherra til framkvæmdar Bankasýslunnar og til þess sem við erum að sjá núna varðandi söluna hjá Íslandsbanka og söluaðilum. Hvernig getur það verið best lukkaðasta útboð sem við höfum séð í Evrópu? Ég skil það ekki.