Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[19:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Bergþóri Ólasyni um að uppboðsleiðin hafi verið skynsöm við þessar aðstæður og hún hafi heppnast vel. Það er auðvitað alltaf þannig að þegar slík leið er farin þá byggist það á svolítið huglægum atriðum hvernig framkvæmdin er á því og auðvitað faglegum sem gefur þá tilefni til að tortryggja, þyrla upp. Þá geta menn sagt: Þetta var ekki hæsta verðið sem þeir gátu fengið, o.s.frv. Þetta er auðvitað hættan við svona leið. Um leið og þú ákveður að selja ekki hæstbjóðanda þá skapar þú þessa hættu. En þetta var auðvitað alveg meðvitað og þetta lá fyrir þinginu og svona var þetta afgreitt, þannig að ég er að velta fyrir mér hvaða tilefni sé til að skipa einhverja rannsóknarnefnd úr því að ekkert í rannsókn Ríkisendurskoðunar gaf okkur tilefni til þess að það væru einhver brot hjá Bankasýslu eða ráðherra eða eitthvað sem benti til þess. Hefði það verið hefðum við getað sagt: Ókei, það kann að vera einhver ástæða til þess. En það var ekki. Þetta finnst mér vera lykilatriði.

Varðandi sölu til framtíðar finnst mér ekki að þetta mál ætti að hindra það með neinum hætti. Ég veit auðvitað að það er fullt af flokkum á þinginu sem geta ekki hugsað sér að selja hlut ríkisins, sem er bara hlutur í venjulegu hlutafélagi sem er á markaði. Þetta er ekki ríkisstofnun. Þetta er ekki ríkisbanki eins og var. Það er bara fullt af fólki sem heldur að það að selja hafi af okkur einhvern pening. Þessu breytum við ekki nema bara hreinlega skipta um heila og það er ekki hægt. En ég held að allir séu búnir að sjá það, hv. þingmaður, að eina vitið er að halda áfram í stað þess að við séum með áhættu upp á mörg hundruð milljarða fyrir skattgreiðendur.