Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir spurninguna um hvernig ég sjái þetta fyrir mér. Útgangspunkturinn er, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á og segir í tillögunni, að þetta snýst um að tryggja hlut þjóðarinnar í arðinum af nýtingu þá vindorku til raforkuframleiðslu með innheimtu auðlindagjalds. Það sem ég hygg að hv. þingmaður sé í rauninni að velta fyrir sér og fiska eftir er hvort ég sjái fyrir mér að einhver hluti þessa gjalds eða þá umframgjöld, eins og hv. þingmaður nefnir, renni sérstaklega til þess sveitarfélags sem á í hlut. Það er umræða sem ég tel að sé mjög vert að taka vegna þess að við höfum horft upp á og séð og þekkjum mjög nýleg dæmi þess að þú sérð mikil áhrif — sem er svo aftur í löngu máli komið inn á í greinargerðinni að verði að taka tillit til — jafnvel í einu sveitarfélagi en mögulegar tekjur í formi fasteignagjalds af mannvirkjum í öðru. Ég spyr hv. þingmann á móti: Er það sanngjarnt?