Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir sína ræðu. Mig langar hins vegar að spyrja út í eitt og annað sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu. Það er þetta með verðmætasköpun. Hv. þingmaður tók dæmi af sjávarútvegi og leyfði sér að fullyrða hér að af öllum atvinnugreinum hefði hún verið hvað mest í sjávarútvegi, m.a. þá vegna þess fyrirkomulags sem þar hefur verið. Gott og vel. Hann kom einnig inn á áhrif á rekstrar- og samkeppnishæfni. En það var þó ekki fyrr en undir blálokin sem ég hjó eftir orðinu sem ég var að leita eftir, sem er umræðuefni sem mér finnst oft gleymast í þessari umræðu um auðlindanýtingu, en það eru áhrifin af nýtingunni. Eins og segir í þessari tillögu okkar þá er uppleggið að það sé í rauninni greitt verð fyrir afnotin af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar en að það gjald sem tekið er endurspegli umhverfisáhrif, standi undir eftirliti, ítarlegum rannsóknum og mælingum á virkjanasvæðum. Mér þætti fróðlegt að heyra afstöðu hv. þingmanns til þess hvernig við myndum þá svona gjaldstofna og hvað ætti að vera þar undir, annað en bara forsendur verðmætasköpunar og/eða rekstrar- og samkeppnishæfni? Við vitum að sérhver framkvæmd, og í þessu tilfelli þá með því að reisa vindorkuvirki í þágu raforkuframleiðslu — hér er enginn að tala um súrefni þó að einhverjir hafi haft gaman af því að koma inn á það hér áður. Hvað telur hv. þingmaður að sé eðlilegt að reiknist þá til í þessu samhengi? Ég ætla í seinni spurningu minni að koma aðeins inn á þetta með hverjir eigi að njóta þeirrar takmörkuðu gæða sem finnast á einhverju ákveðnu svæði.