Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

greiðslumark sauðfjárbænda.

554. mál
[18:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Um leið og ég segi takk fyrir fyrirspurnina, af því að það þarf að taka á erfiðri stöðu sauðfjárbænda, þá vil ég líka þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör, hugrökk svör. Það er meira en að segja það að fara einhverjar fjallabaksleiðir út frá þeim búvörusamningi sem nú liggur fyrir nema það séu skýrar heimildir til þess og ég virði ráðherra fyrir að hafa sett málið í þennan farveg. Ég vil hins vegar einfaldlega benda á það sem ég trúi á og það er að hafa trú á íslenskri landbúnaðarframleiðslu, hvort sem er á sviði sauðfjárræktar, grænmetis- eða kúa- og mjólkurbænda. Hluti af því að hafa trúna er að trúa líka á frelsið, trúa líka á samkeppnina því að frelsið og samkeppnin eru aflvaki nýrra hugmynda, nýsköpunar og fleiri þátta sem, eins og dæmin sanna m.a. í grænmetinu, ýta undir enn öflugri landbúnaðarframleiðslu. Ég vonast til þess að við endurskoðun á búvörusamningnum, sem að einhverju leyti er að fara af stað, verði tekið tillit til þeirra sjónarmiða. Frelsið og samkeppnin munu styrkja stöðu bænda til skemmri og lengri tíma.