153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn.

104. mál
[14:27]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf):

Herra forseti. Í mínum huga er einn þjóðfélagshópur í landinu sem í heild sinni er í viðkvæmri stöðu. Öll börn eru í viðkvæmri stöðu. Það er eðli málsins vegna óásættanlegt að börnum sé mismunað eftir efnahag foreldra. Við öll í þessum sal ættum að geta verið sammála um að það sé óboðlegt að börnum sé mismunað eftir efnahag foreldra í því tilliti sem um er rætt í þessari mikilvægu þingsályktunartillögu sem hér hefur verið lögð fram af hv. 4. þm. Reykv. n., Helgu Völu Helgadóttur.

Tökum dæmi: Sjúkratryggingar Íslands veita 100.000 kr. styrk vegna tannréttingameðferðar með föstum spöngum á a.m.k. tíu fullorðinstennur annars gómsins en 150.000 kr. styrk vegna meðferðar á báðum gómum. Eins og fram kemur hefur þessi styrkupphæð ekki breyst í 20 ár og ekki einu sinni haldið í við verðlagsþróun. Algengur kostnaður við tannréttingar barna er um 800.000–1,2 millj. kr. Í löndum í kringum okkur eru tannréttingar fyrir börn niðurgreiddar. Það er hluti af því að jafna stöðu barna og fjölskyldna þannig að efnaminni fjölskyldur þurfi ekki að neita börnum sínum um nauðsynlegar tannréttingar. Það er ótrúlegt og í raun sorglegt að stjórnvöld líti ekki á þetta sem hluta af nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Hvers konar samfélag er það?

Við erum búin að ræða þetta í áratugi og allt of lengi. Þegar við jafnaðarfólk vorum í ríkisstjórn, eins og komið hefur fram, var Guðbjartur Hannesson heitinn velferðarráðherra. Þá var gengið til samninga við tannlækna og úr varð kerfi eins og er annars staðar þar sem ekki þarf að greiða fyrir tannlækningar barna nema að mjög litlu leyti. Markmið samningsins um tannlækningar barna er að börn yngri en 18 ára fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Eins og kemur fram í greinargerðinni með málinu er nauðsynlegt að slíkt markmið eigi við þegar kemur að tannréttingum barna. Ég hef trú á því að þetta sé þannig tillaga að við ættum að geta náð samstöðu um að fela heilbrigðisráðherra að vinna málið áfram og taka í framhaldinu á þessu óréttlæti.