153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

nafnskírteini.

803. mál
[12:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um nafnskírteini. Frumvarpið var unnið í samráði við Þjóðskrá Íslands. Tilgangur þess er að setja grundvöll fyrir útgáfu öruggra persónuskilríkja sem geta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, einnig verið gild ferðaskilríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

Nafnskírteini sem nú eru gefin út uppfylla ekki alþjóðlegar kröfur til öruggra persónuskilríkja og eru því ekki nothæf utan landsteinanna auk þess sem þau þykja ekki lengur nægilega örugg til auðkenningar hér innan lands. Á hinn bóginn er í auknum mæli gerður áskilnaður um framvísun persónuskilríkja þegar sótt eru réttindi og þjónusta, en ljóst er að ekki njóta allir ökuréttinda eða eiga vegabréf, auk þess sem vegabréf þykja ekki hentug til daglegrar notkunar sem persónuskilríki. Það var því var ákveðið að ráðast í heildarendurskoðun á útgáfu íslensku nafnskírteinanna.

Með frumvarpinu er ætlunin að útvega öllum sem þess óska lögleg skilríki í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Með frumvarpinu er einnig ætlunin að nafnskírteini sem verða gefin út hér á landi uppfylli alþjóðlegar kröfur hverju sinni og með það fyrir augum er stefnt að því að nafnskírteini sem verða gefin út samkvæmt frumvarpinu uppfylli efniskröfur Evrópureglugerðar frá 2019 um aukið öryggi persónuskilríkja og dvalarleyfisskírteina. Reglugerðin hefur enn ekki verið tekin upp í EES-samninginn en fyrir liggja drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku hennar. Með hliðsjón af hraðri þróun í þá átt að persónuskilríki verði stafræn var leitast við að hafa ákvæði frumvarpsins eins hlutlaus og hægt er hvað varðar tækni og form og efni nafnskírteinanna, en þess í stað ráðgert að ráðherra setji reglugerð þar sem þessi atriði verða nánar útfærð. Nafnskírteinin ættu því að geta mætt alþjóðlegum kröfum á hverjum tíma án þess að til lagabreytingar þurfi að koma. Samkvæmt þessu er miðað við að unnt verði að gefa út stafræn skilríki á grundvelli laganna þegar fram líða stundir en með hliðsjón af kröfum fyrrnefndrar Evrópureglugerðar verða þau í formi plastkorta fyrst um sinn.

Líklegt þykir að sér í lagi ungmenni og aðrir sem njóta ekki ökuréttinda kjósi að nota örugg og handhæg nafnskírteini til auðkenningar í daglegu lífi en ungmenni eru meðal þess hóps sem þarf í auknum mæli að framvísa persónuskilríkjum, t.d. við prófatöku í framhaldsskólum, þegar sótt er þjónusta sem miðast við tiltekinn aldur eða þegar gjaldskrá miðast við aldur. Þá þykir líklegt að einstaklingar sem ekki uppfylla lagaskilyrði til að fá útgefið vegabréf eða nafnskírteini sem telst gilt ferðaskilríki komi til með að geta nýtt sér nafnskírteini án ferðaréttinda til auðkenningar í daglegu lífi. Loks má gera ráð fyrir því að hópur fólks kjósi að nota handhæg nafnskírteini sem einnig teljast gild ferðaskilríki í stað vegabréfa á ferðalögum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Um efni frumvarpsins skal í fyrsta lagi nefnt að lagt er til að allir íslenskir ríkisborgarar eigi rétt á að fá útgefið nafnskírteini og er það breyting frá gildandi lögum sem mæla fyrir um útgáfu til allra einstaklinga sem eru skráðir hér á landi og eru orðnir 14 ára. Eins og þegar hefur verið komið inn á þurfa ungmenni í auknum mæli á persónuskilríkjum að halda og er því lagt til að ekkert aldurstakmark verði á réttinum til nafnskírteina. Þá er gengið út frá því að aðrir EES-borgarar geti fengið sambærileg persónuskilríki gefin út í sínu heimalandi á grundvelli fyrrnefndrar Evrópureglugerðar og þykir eðlilegt að útgáfa persónuskilríkja til annarra erlendra ríkisborgara fari fram á grundvelli laga um útlendinga.

Í öðru lagi er lagt til að gefin verði út tvenns konar nafnskírteini, með og án ferðaréttinda, og með því móti tryggt að fólk geti fengið öruggt persónuskilríki þótt það uppfylli ekki skilyrði laga til að fá gefin út ferðaskilríki.

Í þriðja lagi er lagt til að Þjóðskrá Íslands verði áfram ábyrg fyrir útgáfu nafnskírteina. Stofnunin hefur nú þegar með höndum útgáfu nafnskírteina og vegabréfa. Þar er því fyrir hendi reynsla, þekking, kunnátta og tækjabúnaður til að annast skilríkjaútgáfu samkvæmt frumvarpinu með öruggum hætti.

Í fjórða lagi er lagt til að lögfest verði heimild fyrir ráðherra að ákveða með reglugerð að andlitsmynd, fingraför og aðrar lífkennaupplýsingar fylgi umsókn um nafnskírteini. Einnig verði lögfest heimild fyrir Þjóðskrá Íslands að safna þessum upplýsingum og varðveita þær. Þar sem um er að ræða vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga eru einnig lagðar til tilteknar verndarráðstafanir vegna meðferðar þessara upplýsinga, t.d. að ýtrustu öryggiskrafna skuli gætt við varðveislu þeirra og að þær skuli ekki varðveittar lengur en þörf krefur miðað við tilgang varðveislu þeirra.

Í fimmta lagi er lagt til það nýmæli að Þjóðskrá Íslands haldi sérstaka skrá sem almenningur getur flett upp í til að staðreyna gildi nafnskírteina við notkun þeirra, þ.e. fá annaðhvort jákvæða eða neikvæða svörun um gildi nafnskírteinis samkvæmt uppgefnu númeri.

Loks eru í frumvarpinu ákvæði sem eru að mestu sambærileg ákvæðum gildandi vegabréfalaga. Þetta eru ákvæði sem lúta annars vegar að því að tryggja öryggi við útgáfu og notkun nafnskírteina og hins vegar að sjónarmiðum um refsivörslu. Enn fremur er mælt fyrir um að refsivert verði að ranglega afla sér eða barns nafnskírteinis eða að gera sér nafnskírteini að féþúfu.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.