153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

heimavitjun ljósmæðra.

[15:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að eiga hér orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um heimavitjun ljósmæðra, þjónustu sem er veitt nýbökuðum foreldrum og barni fyrstu tíu dagana eftir útskrift af fæðingarstofnun. Þetta er algerlega ómissandi þjónusta, sérstaklega fyrir þau okkar sem eru að fóta sig í alveg glænýju hlutverki og hafa allt í einu fengið risavaxið verkefni í hendurnar sem er ólíkt öllu öðru. Þá er svo dýrmætt að fá ljósmóður heim og fá stuðning, fræðslu og ráðgjöf um hvernig eigi að bera sig að. Það er svo mikið öryggi sem felst í þessu öllu.

En forseti. Mér varð svolítið brugðið þegar ég komst að því að það eiga ekki allir nýbakaðir foreldrar rétt á þessari þjónustu. Samkvæmt rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og ljósmæðra fellur rétturinn til heimavitjunar niður ef foreldrar og barn þurfa af einhverjum ástæðum að vera lengur en 72 klukkustundir á fæðingardeild. Þetta er svo öfugsnúið vegna þess að það eru einmitt þessar fjölskyldur sem þurfa kannski mest á þessari þjónustu að halda.

Nú hef ég rætt við fjölda fagfólks sem er á einu máli um að þessum reglum þurfi að breyta. Það er eitthvað sem ljósmæður hafa lengi kallað eftir. Góðu fréttirnar eru þær að ráðherra getur kippt þessu í lag með einu pennastriki, með því að hafa forgöngu um breytingar á rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands og ljósmæðra, sem er endurskoðaður með reglulegu millibili. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson: Er ráðherra sammála mér, ljósmæðrum og okkur jafnaðarmönnum um að heimavitjun ljósmæðra eigi að vera fyrir alla foreldra, en ekki bara suma? Og megum við ekki treysta því, herra forseti, að hæstv. ráðherra búi þannig um hnútana að svo verði?