153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Öll sem hafa talað í þessari umræðu segja að það eigi að virða stjórnarskrá, mannréttindi og alþjóðlegar skuldbindingar vegna flóttafólks, þeirra sem eru raunverulega að flýja hörmungar. Öll höfum við sagt að við viljum skilvirkt og mannúðlegt kerfi sem skilar sanngjarnri niðurstöðu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Við höfum öll sagt að flóttamannakerfið sé ekki fyrir efnahagslegt flóttafólk. Öll virðumst við vera sammála um hvert markmiðið eigi að vera en, og ég held að það verði að segjast upphátt, við virðumst ekki vera sammála um það hverjir geta verið flóttamenn.

Það kom skýrt fram á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar að sum okkar vilja ekki viðurkenna suma flóttamenn sem flóttamenn, það virðist vera þar sem ágreiningurinn liggur. Sum okkar vilja einfaldlega að sem fæst geti talist vera flóttafólk og ásaka okkur hin um að vilja að öll geti flokkast sem flóttafólk þegar við viljum í raun og veru bara að mannréttindi séu virt.