153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það hefur enginn getað útskýrt almennilega hvernig í ósköpunum þetta frumvarp á að auka skilvirkni eða draga úr kostnaði í verndarkerfinu og raunar fengum við í fjárlaganefnd staðfestingu á því nú í morgun að í stjórnkerfinu er ekki gert ráð fyrir neinum sparnaði út af því. Hitt er hins vegar alveg ljóst að hér er á ferðinni þingmál, hér er á ferðinni frumvarp, sem grefur undan réttindum fólks. Þess vegna hafa nær öll mannréttindasamtök á Íslandi varað Alþingi eindregið við því að samþykkja frumvarpið, biðlað til Alþingis að samþykkja það ekki, bent á að þetta er frumvarp sem veldur fólki skaða, veldur manneskjum tjóni, m.a. barnafólki og fólki í viðkvæmri stöðu. Samt vilja þingmenn Vinstri grænna samþykkja frumvarpið, það er þeirra vilji. Samt vilja þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ná fram þessum breytingum. Og hvað er veigamest í frumvarpinu? Jú, það kom fram í máli talsmanns Sjálfstæðisflokksins í fyrradag. (Forseti hringir.) Það er hótunin um réttindamissi, hótunin um skort, hótunin um heimilisleysi, það er hugurinn sem liggur að baki frumvarpinu. — Það verður eftir því tekið hvernig atkvæði falla hér í dag.