153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Í greinargerð frumvarpsins sem við erum að fara að greiða atkvæði um, stendur, með leyfi forseta: „Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá.“ Umsagnaraðilar benda hins vegar á að efni frumvarpsins varðar með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd, mannréttindi sem eru varin í stjórnarskrá. Við ættum öll að geta séð hið augljósa hér. Það er verið að hringla með réttindi fólks í þessu frumvarpi og það verður að meta hvort það standist stjórnarskrá. En einfaldri beiðni stjórnarandstöðunnar um slíkt mat var hafnað. Miðað við allar viðvaranir umsagnaraðila ættum við öll að geta séð að slík beiðni er ekki bara málefnaleg heldur nauðsynleg til að Alþingi geti afgreitt þetta mál með sóma. En nei, nei og aftur nei, málið skal í gegn án þess að það sé skoðað hvort það standist stjórnarskrá og það eitt ætti að segja okkur öllum hérna að meiri hlutinn hefur slæman málstað að verja.