153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar halda fram að brugðist hafi verið við athugasemdum umsagnaraðila. Það var ekki brugðist við athugasemdum umsagnaraðila um að tveggja vikna sjálfkrafa kærufrestur myndi brjóta gegn málsmeðferðarréttindum flóttafólks. Það var ekki brugðist við því að beiting þjónustusviptingu væri ekki í takt við mannréttindi þessara einstaklinga; að taka af fólki heilbrigðisþjónustu, að svipta það þaki yfir höfuðið, sem þingmenn VG vilja gjarnan tala um sem mannréttindamál á tyllidögum — húsnæði og þak yfir höfuðið — eins og var raunar gert við 20 flóttamenn fyrir tveimur árum síðan af einmitt ráðherra Sjálfstæðisflokksins gagnvart flóttamönnum frá Palestínu til að reyna að reka þá úr landi. Þeir voru gerðir afturreka með það af kærunefnd útlendingamála og þess vegna er verið að setja þetta inn í lögin núna, vegna þess að þeir máttu ekki gera þetta síðast þegar þá langaði til að henda flóttafólki á götuna. Til þess að búa til svipuna og leiðina (Forseti hringir.) til að henda fólki úr landi, þá á að gefa Útlendingastofnun heimild til að ákveða að flóttafólk eigi bara að fara eitthvert annað. (Forseti hringir.) Það þarf ekki að hafa heimild til dvalar þar og þarf ekki einu sinni að eiga ættingja þar. (Forseti hringir.) Útlendingastofnun þarf bara að finnast að fólk eigi frekar að fara eitthvert annað og um það snýst þetta mál; sendum fólkið bara eitthvert annað.