153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta ákvæði er ansi ítarleg. Þar er bent á að sá kærufrestur sem fyrir er í lögum, þ.e. að umsækjandi hafi tvær vikur til að ákveða hvort hann vilji kæra ákvörðun eða ekki, sé gríðarlega mikilvægur tími fyrir umsækjanda. Í fyrsta lagi vegna þess að ákvarðanirnar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fá eru á íslensku. Þetta eru oft margar blaðsíður. Það þarf að þýða þetta fyrir umsækjendum um alþjóðlega vernd. Það þarf að fara með þeim í gegnum efnisatriði ákvörðunarinnar og út frá því þurfa þau að meta hvort þau vilja kæra eða ekki. Þetta er tímafrekt. Sömuleiðis hafa umsækjendur þurft að standa í viðamikilli gagnaöflun sem Útlendingastofnun, þrátt fyrir að hún hafi frumkvæðisskyldu, rannsóknarskyldu að eigin frumkvæði, hefur ekki sinnt í mörgum tilfellum. Þetta er eitthvað sem Rauði krossinn hefur endurtekið gagnrýnt Útlendingastofnun fyrir að sinna ekki, t.d. að afla viðeigandi gagna um fötlun viðkomandi, ástæðu þess að hann ætti að teljast í sérstaklega viðkvæmri stöðu (Forseti hringir.) eða merki um pyndingar. Stundum er fólk ekki einu sinni búið að fara í læknisskoðun áður en þessi ákvörðun er tekin. (Forseti hringir.) Þessi tími hefur nýst í gagnaöflun. Nú á að taka þennan mikilvæga tíma af umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þetta er það sem brýtur á réttindum flóttafólks.