153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja umsækjanda um alþjóðlega vernd um vernd, er stjórnvaldsákvörðun. Alls staðar annars staðar í stjórnsýslunni er það þannig að þegar stjórnvald tekur ákvörðun og aðili sem sætir þessari ákvörðun er ósáttur við ákvörðunina og kemur fram með ný gögn, sýnir fram á breyttar forsendur eða sýnir fram á að ákvörðunin sé röng, þá á viðkomandi rétt til að fá mál sitt endurupptekið.

Það er ekki að sjá né finna að stjórnarliðum finnist það mjög sárt að annars staðar í stjórnsýslunni fái einstaklingar endurupptöku á málum sem eru afgreidd á röngum forsendum. Það er bara gagnvart flóttafólki. Það á að mismuna þeim. Þá á að veita þeim minni málsmeðferðarréttindi en öllum öðrum hér sem sæta öllum öðrum stjórnvaldsákvörðunum. (Forseti hringir.) Það er það sem er verið að gera hér.