153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:42]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Þótt tillaga okkar, um að þessi grein verði í heild sinni felld brott úr frumvarpinu, hafi verið felld, þá er þetta, hvað á ég að segja, svona örþrifaráðstillaga hjá okkur. Í 24. gr. stjórnsýslulaga segir, með leyfi forseta:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Hvað kemur fram í þessari 4. mgr. 7. gr. í frumvarpinu? Jú, 24. gr. stjórnsýslulaga gildir ekki í málum flóttafólks. Það er lágmark að það verði samþykkt hér að fella þessa grein úr frumvarpinu vegna þess að hún stenst ekki með nokkrum hætti. Ég segi já.