153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Er ekki rétt að við erum hér að greiða atkvæði um 13. gr. og að hún falli brott? (Forseti (BÁ): Já, það er rétt.)13. gr. tekur á þessu með afleiddu verndina. Ég hef ekki haldið því fram að þetta sé ívilnandi en aftur á móti gildir það um 15. gr., sem ég held að við greiðum líka atkvæði um hér á eftir því það er líka eitthvað sem Píratar vilja gjarnan taka út úr þessu frumvarpi. En þarna erum við að skilgreina frekar hverjir það eru sem geta sótt um vernd vegna fjölskyldusameiningar. Þeir sem hafa fengið slíka vernd vegna fjölskyldusameiningar, svokallaða afleidda vernd, geta svo ekki haldið áfram og það er ekki hægt að byggja á þessari afleiddu vernd þegar aftur kemur að fjölskyldusameiningu og fá vernd aftur. Því erum við að koma í veg fyrir ákveðna hringekju hvað þetta varðar. Á sama tíma tökum við undir þau grundvallarréttindi sem felast í fjölskyldusameiningu og fólk getur enn komið hingað til lands og óskað eftir dvalarleyfi á forsendum fjölskyldusameiningar. Því tel ég þetta ekki brjóta mannréttindi fólks. (Forseti hringir.) En ég vil líka hvetja Pírata til að draga til baka breytingartillögu varðandi 15. gr. því það er svo sannarlega ívilnandi grein.