153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Eins og við ræddum hér aðeins fyrr í kvöld eru stjórnsýslulög og meginreglur þeirra mannréttindamál. Það að fólk eigi rétt á sanngjarnri meðhöndlun hjá stjórnvöldum er grundvallaratriði fyrir allt fólk, líka flóttafólk. Hér er lagt til að fella brott þá ótrúlegu hugmynd stjórnarliða að ný gögn í máli eigi engu að skipta, að það eigi ekki að taka upp mál aftur þó að fólk leggi fram ný gögn í því máli bara vegna þess að um er að ræða flóttafólk. Þetta er ansi skýrt dæmi um að stjórnarflokkunum finnst greinilega ekki sama hvaðan fólk kemur þegar það spyr sig hvort mannréttindi eigi að gilda um það eða ekki.