153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hef verið gagnrýnd fyrir það, í umræðum um þetta frumvarp, að ég sé dónaleg og hrokafull þegar ég segi að ég hafi áhyggjur af því að þingmenn meiri hlutans viti ekki hvað þau eru að samþykkja. Þetta ákvæði er sennilega besta dæmið um það. Hv. þingmaður kemur ítrekað fram og segir að þetta ákvæði sé ívilnandi og það er ótrúlegt. Það eina sem verið er að gera með þessu ákvæði er að undanskilja kvótaflóttamenn frá heimild til fjölskyldusameiningar sem gildir um annað flóttafólk. Það eru reglur í lögum sem segja að ef einstaklingur er flóttamaður og ætlar að fá maka sinn til landsins þurfi hann að hafa unnið hér í fjögur ár til þess að viðkomandi megi koma, nema ef fólk var gift áður en það kom — nema það sé kvótaflóttafólk, er það sem á að bæta við. Þetta er ekki ívilnandi, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, ekki í neinum skilningi vegna þess að það er verið að undanþiggja kvótaflóttafólk heimild sem það fellur undir í dag. Þetta er ekki ívilnandi í neinum heimi. Því miður sýnir þetta glöggt að hv. þingmenn meiri hlutans vita ekki hvað þau eru að samþykkja. Ég segi já við því að fella þetta brott.