153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki annað hægt en að leiðrétta hér umræður því að oft eru hlutirnir málaðir upp með svo fáránlegum litum að það stenst enga skoðun. Það er þannig að það er mælt fyrir um þau skilyrði sem stjórnvöld þurfa að leggja mat á og þar er m.a. vísað til þess að það er nauðsynlegt að réttindi sem mælt er fyrir um í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna séu virt. Stjórnvöldum ber að meta hvert tilvik með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum og stöðu umsækjenda gagnvart viðkomandi ríki. Í greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram að það skuli líta til lengd dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu við mat á því hvort það geti talist sanngjarnt eða eðlilegt. Það er ekkert í þessu ákvæði sem heimilar íslenskum stjórnvöldum að senda fólk bara eitthvert eða senda fólk í hættu. Það er skýrt tekið fram í lögunum. Við vísum fólki ekki brott þar sem líðan og frelsi þess kann að vera í hættu. Það er einstaklingsbundið mat við hverjar aðstæður. Þannig að þær sögur og orð sem eru látin falla um þessa grein standast enga skoðun. Ég segi nei.