153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Hér er lagt til til vara að fella brott b- og c-lið 8. gr. frumvarpsins. B-liður fjallar um að hægt sé að brottvísa fólki eitthvert, kannski ekki algerlega eitthvert heldur bara eitthvert þangað sem Útlendingastofnun finnst að fólk eigi að eiga heima. Ekki algjörlega út í loftið heldur bara eitthvert þar sem Útlendingastofnun túlkar það svo að viðkomandi eigi kannski fjölskyldutengsl, frænku í einhverju landi þarna eða hver veit hvað. Það hefur verið gagnrýnt fyrir að vera óskýrt og víðtækt. Þetta er einfaldlega ekki traust ákvæði. C-liðurinn hins vegar, við tölum kannski betur um hann á eftir, snýst um að tafir sem eru á ábyrgð annarra en umsækjenda geti haft áhrif á það hvort þeir eigi rétt á efnismeðferð. Hér hafa stjórnarliðar séð ástæðu úr þessum ræðustól til að undirstrika að það eigi jafnt við (Forseti hringir.) um fullorðið fólk og börn. Börn eiga að líða fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi annarra í málum sínum.