153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er svolítið áhugavert að heyra hvað það eru margir aðilar sem hafa misskilið þetta frumvarp að mati hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur vegna þess að (Gripið fram í.) þeirra á meðal er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem gerði margar athugasemdir við þetta ákvæði sem ekki var brugðist við, Rauði krossinn á Íslandi, sem hefur séð um móttöku flóttafólks frá árinu 1956, Barnaheill, UNICEF, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar. Allir þessir aðilar eru bara að misskilja, þeir eru að misskilja. Þetta er ívilnandi, þetta er frábært. Kannski eru það ekki þeir sem eru að misskilja. Það er skýrt að í þessu ákvæði sem við erum að tala hér um og leggjum til að verði fellt brott er verið að veita Útlendingastofnun frekari heimildir til þess að vísa fólki þangað sem stofnuninni finnst eðlilegt og sanngjarnt að viðkomandi fari eða dveljist eða sé fluttur þangað. Þetta er bara skýrt í ákvæðinu, (Forseti hringir.) þangað sem Útlendingastofnun finnst eðlilegt og sanngjarnt. Svo í ofanálag, það sem slær botninn úr, er lokaákvæðið, sem við getum rætt betur hérna á eftir, sem sviptir börn réttindum og það er skýrt. (Forseti hringir.) Það er óumdeilt. En jú, UNICEF og Barnaheill eru að sjálfsögðu að misskilja, ekki hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir.