153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:58]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Í núgildandi lögum segir, með leyfi forseta:

„Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.“

Þetta er í núgildandi lögum. Það er ekki þannig í núgildandi lögum að fólk geti bara ekki hlítt þeim og endalaust tafið mál sitt og þannig, eins og hv. þingmaður orðaði það, fengið efnismeðferð, þá fái viðkomandi efnismeðferð, af því að það er eitthvað sem við viljum alls ekki að fólk fái. Ef hv. þingmaður er á móti þessari reglu sem setur pressu á stjórnvöld að klára frávísunarákvörðun sína innan 12 mánaða, ella skuli hún bara að skoða málið, þá legg ég til við hv. þingmann að leggja til að þessi regla verði aflögð frekar en að stilla henni þannig upp að börn verði látin líða fyrir athafnir annarra. Það er brot á íslenskum lögum. Það er brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þetta er skýrt. Ef þið vilja afnema þessa reglu, sem er svona séríslensk og hræðileg, skulum við afnema hana. (Forseti hringir.) En ekki með þessum hætti. Ég segi já við því að fella þetta brott.