153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:02]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Líkt og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson útskýrði þá snýst sú breyting sem við erum að leggja til að verði felld brott úr frumvarpinu um það að fjölga þeim tegundum hópa flóttafólks sem hægt er að afturkalla verndina hjá. Hver er tilgangurinn með þessu ákvæði? Snýst þetta um skilvirkni? Nei, það er í rauninni verið að leggja það á Útlendingastofnun að taka fleiri ákvarðanir um eitthvað sem hún þarf ekki að gera í dag vegna þess að hún hefur ekki heimild til þess. Það er verið að bæta á hana ákvarðanatöku. Við erum að tala um að heimild til að svipta fólk vernd sem það hefur fengið verði látin ná yfir þær þúsundir einstaklinga sem koma hingað frá Úkraínu, sem er ekki í dag, fyrir utan að þau fá árs mannúðarleyfi sem fylgir ekki einu sinni atvinnuleyfi, en það er önnur saga og önnur umræða. Hver tilgangurinn með þessu? Tilgangurinn er ekki sá að straumlínulaga kerfið, að bæta skilvirkni í málaflokknum. Tilgangurinn er að tryggja að það sé örugglega hægt að koma þessum flóttamönnum sem fyrst úr landi, ef við erum á annað borð neydd til að veita þeim vernd, senda þau skilaboð út í heim: Þið eruð ekki velkomin og við viljum ekki hafa ykkur hérna nema bara í þær þrjár mínútur sem við neyðumst til (Forseti hringir.) samkvæmt alþjóðasamningum. Ég segi já við því að fella þetta brott.