153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:12]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég tek öllu leyti undir með hv. þm. Sigmari Guðmundssyni. Það sem er verið að setja þarna inn er að í lögunum standi að það skuli ávallt fara fram sérstakt hagsmunamat, mat á hagsmunum barna. Vandinn er sá að það er gert nú þegar, það er gert í framkvæmd. Vandinn er ekki sá að það fari ekki fram hagsmunamat. Vandinn er hagsmunamatið vegna þess að hagsmunamatið er þannig að það sé barninu alltaf fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum. Það er tekin ákvörðun í máli foreldranna og það fer ágætlega um þau á brotajárnshaugum í Grikklandi. Það er barninu fyrir bestu að vera ekki skilið eftir á Íslandi heldur að fylgja foreldrum sínum þannig að það er barninu fyrir bestu að búa á brotajárnshaug í Grikklandi. Þetta ákvæði breytir engu um það, þetta hagsmunamat mun ekkert breytast nema við getum treyst því að hæstv. dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, setji reglugerð um hagsmunamat barna sem er á einhvern annan hátt en framkvæmdin er í dag. Ég leyfi mér að efast. Ég sit hjá við þessa atkvæðagreiðslu.