153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Enn og aftur vil ég fagna þeirri niðurstöðu sem hér blasir við okkur í þessu mikilvæga máli. Ég verð að segja að það er búið að vera áhugavert að fylgjast með þessari atkvæðagreiðslu, alveg eins og það var áhugavert að fylgjast með umræðunni. Umræðan gekk mikið til út á það að af hálfu stjórnarandstöðunnar, sérstaklega Pírata og Viðreisnar, að það væri ekkert í þessu frumvarpi sem breytti neinu. Svo hafa hér verið breytingartillögur á breytingartillögur ofan, varatillögur, aukatillögur og hvað á að kalla þetta, allt með heitum ræðum um afleiðingar frumvarpsins og þær breytingar sem það hefði í för með sér og því yrði að koma með breytingartillögur. Manni datt stundum Ragnar Reykás í hug hér í kvöld, en þetta var dyggilega stutt af hv. þingmönnum Viðreisnar og svona er nú staðan. Því held ég að þetta hafi verið góð staðfesting á því fyrir okkur sem fylgjum þessum málum og þessu frumvarpi, að hér er verið að vinna gott verk. Ég segi já.