153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Sléttum 12 árum eftir að stríð braust út í Sýrlandi erum við hér að samþykkja lög sem eru sorgleg. Þau eru til skammar fyrir Alþingi Íslendinga. Við erum að setja alvarleg fordæmi um það að hér sé hægt að þvinga í gegnum þingið lög sem líkur eru á að á brjóti gegn sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, á fólki sem hefur lítil sem engin tök á að láta reyna á það einu sinni.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmenn Framsóknarflokksins, hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs geta státað sig af því að þeir einstaklingar sem stóðu fyrir utan fyrr í dag og mótmæltu munu standa þar næstu árin. Þau munu þá búa hérna á Austurvelli, þessir einstaklingar. Og hverjum er það í hag? Engum.

Ég vil hins vegar taka undir það sem kom fram í ræðu Þórunnar nokkurrar Ólafsdóttur sem hún hélt hér á Austurvelli fyrir stuttu, um daginn. Þórunn Ólafsdóttir hefur áralanga reynslu af því að aðstoða fólkið úti í Grikklandi. Hún kastaði frá sér leiðsögumöppunni þegar hún var leiðsögumaður þar í landi og fór að hjálpa fólki upp úr sjónum. Hún sagði: Hvort sem þetta frumvarp verður að lögum eða ekki þá er skaðinn skeður. Og við höfum heyrt það af orðræðu hv. þingmanna, meiri hlutans, hæstv. dómsmálaráðherra og fleiri, á undanförnum mánuðum, við sjáum það í könnunum: Skaðinn var skeður en það var ekki bætandi á með þessu. — Skammist ykkar.