Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

úthlutanir Tækniþróunarsjóðs.

297. mál
[19:01]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja þessa umræðu á dagskrá um stöðu kynjanna og aðallega þá stöðu kvenna í úthlutunum nýsköpunarsamfélagsins, af því að við höfum hreyft við því kerfi mjög hratt á undanförnum árum. Við höfum sett mikla fjármuni í að fjárfesta í hugmyndum fólks og þá skiptir máli að allir hafi jafnan aðgang að því stuðningskerfi.

Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns þá eru lög um Tækniþróunarsjóð þannig að kveðið er á um úthlutunarstefnu þar sem fylgja skal áherslum Vísinda- og tækniráðs og þar segir líka að stjórn sjóðsins setji reglur um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð. Af þessu leiðir að stjórn sjóðsins er í raun sjálfstæð í störfum sínum og ráðherra skortir beinar valdheimildir til að setja áherslur um markmið við úthlutun styrkja. En í 6. gr. laganna er aftur á móti heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um starfsemi og rekstur sjóðsins og framkvæmd laganna sem hefur ekki enn verið nýtt. Í þessu ljósi og eftir skoðun hef ég talið heillavænlegast að áherslur um kynjahlutföll við úthlutun styrkja úr sjóðnum komi frá Vísinda- og tækniráði og stjórn sjóðsins og það er samtal sem við eigum við Vísinda- og tækniráð, sem verður fljótlega að Vísinda- og nýsköpunarráði.

Varðandi spurningu tvö þá var leitað til Rannís um aðstoð og gögn vegna þeirra svara, þ.e. um verkefnastjórana og hvernig það er metið. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ekki rétt mat eða fyllilega rétt sýn á það að miða við verkefnastjóra. Ég held að það væri vænlegra að skoða hver átti hugmyndina, hvaðan kemur hugvitið og hvaðan kemur hugmyndin frá. Við höfum verið að skoða hvaða leiðir væru bestar í þessu af því að við erum að vinna í því að setja upp mælaborð nýsköpunar til að eiga enn þá betri gögn um allt sem er að gerast og hvernig það er að gerast.

Varðandi úthlutun eftir verkefnastjórum þá hafa konur verið að leiða um þriðjung umsókna í Tækniþróunarsjóð. Við höfum verið að skoða hvort við ættum að skoða fyrirtækjaskrá Skattsins til að meta hver sé eigandi verkefnisins, þ.e. skráður eigandi eða lögaðili. En það er líka bundið ákveðnum vandkvæðum þegar það er skoðað af því að samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins, ef við tökum dæmi, þá er t.d. ónefnd kona skráð formaður stjórnar Háskólans í Reykjavík en ónefndur karlmaður hins vegar skráður raunverulegur eigandi. Hvort ber þá að skilgreina Háskólann í Reykjavík, sem umsækjanda, sem konu eða karl í skilningi þessarar tölfræði? Þetta er eitthvað sem við erum að vinna að, hvernig við getum metið þetta betur og óskin væri kannski að reyna að safna upplýsingum um raunverulegan eiganda verkefnisins, þ.e. frumkvöðulinn, helsta hvatamanninn, til að fá betri sýn á það hvar hugmyndir frá konum eru inni í þessu kerfi. Þetta er bara í skoðun og við erum að reyna að fá betri tölfræðileg gögn um allar þessar úthlutanir. Sú tölfræði sem er aftur á móti til hjá Rannís um kynjaskiptingu eftir eiganda umsókna miðast við prósentur en ekki fjölda umsókna eftir kyni. En þetta er eitthvað sem við erum líka að reyna að lagfæra þannig að upplýsingar vegna spurningar númer þrjú liggja ekki fyrir, um fjölda úthlutana, sundurliðað eftir kyni eiganda, því miður.

Síðan er það spurning fjögur, hvort það þurfi ekki að liggja fyrir frekari upplýsingar um fjárhæðir. Ég myndi segja jú, við erum að reyna að átta okkur á því hvernig við getum tekið það fram og varpað því fram betur hvernig staðan er. En sú tölfræðilega greining sem liggur nú þegar fyrir — og gagnatorg Rannís var skref í þá átt að reyna að búa til gagnsærra kerfi utan um sjóðaúthlutanir okkar — er um kynjasamsetningu stjórna og fagráða sjóðsins, fjölda umsókna eftir kyni verkefnastjóra, eins og við höfum talað um, hlutfallslega skiptingu umsókna eftir kyni verkefnastjóra, árangurshlutfall, hlutfallslega skiptingu og fleira. Við erum að vinna að mælaborði nýsköpunar og þar erum við að reyna að vinna að frekari upplýsingum um styrkveitingar úr öllum samkeppnissjóðum og birta þær.

Varðandi spurningu fimm þá er flokkun frumumsókna í Tækniþróunarsjóð eftir kyni verkefnastjóra og árin 2019–2021 sóttu karlar um 19,3 milljarða og fengu úthlutað 2,8 milljörðum en konur sóttu um 8,1 milljarð og fengu úthlutað 1,1 milljarði kr. Ef við tökum 2022 hefur þetta batnað verulega þar sem fyrirtækjastyrkirnir eru t.d. 40% konur og það er hæsta hlutfall sem við höfum séð. 36% í heildina úr Tækniþróunarsjóði. En meginhluti fjármagnsins eða 80% liggur í fyrirtækjastyrkjunum, stærri styrkjunum og þar eru konur verkefnastjórar í 42% af úthlutunum. Þannig að árið 2022 er það besta sem við höfum séð. En það er verk að vinna og stundum líður mér eins og umræðan um þetta sé eins og umræðan var um konur í pólitík fyrir nokkrum árum. Þær þurfa bara að vera duglegri að sækja um. Það er nú aldeilis ekki þannig. Við þurfum að gera betur og að taka saman betri og gagnsærri gögn um alla sjóðina.