Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

úthlutanir Tækniþróunarsjóðs.

297. mál
[19:10]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt greinilega að taka þessa umræðu hér í þingsal af því að við vitum að þegar við erum að búa til kerfi þá þurfum við að gæta þess að fólk hafi aðgang að þeim, hvernig við erum að búa til kerfin og hvernig þau eru uppbyggð og hvernig fólk sér þau. Ef við skoðum bara t.d. tölur frá Bandaríkjunum, af því hv. þingmaður var að skoða peningana og hvar fjármunirnir enda og sérstaklega af því að hv. þingmaður kemur hér og segir að það þurfi ekkert að vera að pæla í þessum kynjamálum í nýsköpunarumhverfinu, (ÞKG: Ekki ég.) — nei, hv. þingmaður frá Flokki fólksins — þá fóru á síðasta ári 330 milljarðar dollara í fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum í Bandaríkjunum og 2% af þessum fyrirtækjum voru stofnuð af konum. Það er auðvitað ekki þannig að 98% karlar séu bara betri í því að stofna fyrirtæki. Og umræðan um háskólana síðustu daga hefur sýnt að þar er verk að vinna gagnvart strákunum. Þar er aldeilis verk að vinna. Við viljum heldur ekki að það sé vígi kvenna, háskólar og framhaldsmenntun, og að vígi karlmanna sé í nýsköpunar- og fjármögnunarumhverfinu. Nei, við viljum og verðum að ná árangri í hvoru tveggja af því það skiptir íslenskt hagkerfi máli. Það skiptir íslenskt hagkerfi máli að konur og karlar mennti sig, sæki sér framhaldsmenntun og séu í skóla til að stækka efnahagslífið og fjölga stoðum atvinnulífsins. En það skiptir líka máli fyrir nýsköpunarumhverfið og hugmyndirnar að konurnar sjái tækifæri í sjóðunum sem þær hafa ekki gert í jafn miklum mæli og karlarnir. Þess vegna er mikilvægt að við höfum skýrar tölur og gögn um það. Ég hef ekki talað fyrir kynjakvóta í neinum samkeppnissjóðum en ég segi: Ég get beitt mér fyrir bættu mælaborði og tekið stöðuna reglulega og það gæti þurft að taka átak eða annað til að átta okkur á því hvernig við náum árangri þannig að allir hafi jafna stöðu gagnvart kerfunum okkar. (SigurjÞ: Hafa ekki allir jafna stöðu?) (ÞKG: Nei, ekki allir.)