Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir prýðisræðu. Mig langar að bera upp tvær fyrirspurnir í fyrri lotu og tvær aðrar í seinni, jafnvel fleiri í fyrri ef tími leyfir. Við fengum fréttir af því í gær að Noregur væri núna hluti af skotfæraflutningi til Úkraínu. Noregur hefur dýpkað mjög tengsl sín við ESB og hefur átt mjög markvisst og „intensíft“ samtal við m.a. EPF, sem er evrópska friðarleiðin — ég man ekki nákvæmlega nafnið — en þau sjá til þess að Úkraína muni fá núna mörg hundruð þúsund skotfæri í samvinnu við ESB og Noreg. Norskir þingmenn segja mér að þetta muni hugsanlega leiða til þess að samtalið milli Noregs og Evrópusambandsins muni dýpka og samtalið heima fyrir verði meira.

Mig langar að fá álit hæstv. ráðherra á því hvernig hann metur þessa meiri þátttöku Norðmanna í Evrópusamstarfinu og hvað Ísland þurfi að gera til að dýpka enn frekar samtalið. Við vitum náttúrlega að þessi ríkisstjórn er ekki að fara í ESB, en hvernig erum við að gæta hagsmuna okkar gagnvart Evrópusambandinu þannig að við verðum einmitt fullir og verðugir þátttakendur í þessu samstarfi?

Í öðru lagi þá eru Kína og Rússland að hittast núna, Xi Jinping er að hitta stríðsglæpamanninn Pútín og auðvitað vonum við að það komi út úr þessu eitthvað raunhæft og friðsamt, alveg eins og Kína gerði vel með því að leiða saman Írana og Sáda, en lengi hefur verið erfitt þar á milli. Hvernig sér hæstv. ráðherra þetta samtal Kína og Rússlands? Gefum okkur að á einhverju tímabili náist ekki friður í gegnum Kína og miklu frekar að Kína miðli vopnum og styðji Rússa enn frekar en það gerir, eru þá íslensk stjórnvöld tilbúin með sín viðbrögð? (Forseti hringir.) Hefur það verið rætt innan NATO hvernig eigi að bregðast við ef Kína tæki það afdrifaríka skref að fara að fullum krafti með Rússum?