Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi spurningu um Kína, þá hljóta allir auðvitað að vona að hægt sé að tala Rússland af þeirri ömurlegu vegferð sem Pútín hefur leitt landið út í. Í þessum efnum getur Kína valið að leika uppbyggilegt hlutverk og það skiptir miklu máli að Kína velji að taka frekar afstöðu með alþjóðalögum og alþjóðakerfinu heldur en með þjóð og forseta sem réðst inn í nágrannaríki, sem lýtur forystu manns sem er eftirlýstur fyrir stríðsglæpi. Eins og hv. þingmaður nefndi þá hefur Kína leikið hlutverk í öðrum málum og ég segi alla vega fyrir mitt leyti að ef einhver vonarglæta er í því að Kína fari að beita sér af einhverri alvöru og meiningu þá get ég ekki annað en litið til þess að forseti Úkraínu hefur sjálfur óskað eftir fundi með forseta Kína og sagst vera tilbúinn í samtal. En auðvitað lítur maður líka á gjörðir og hvers konar kerfi er verið að leggja áherslu á í þessum ríkjum, og er Kína þar á meðal.

Varðandi Noreg og okkar hlut í því, þá get ég sagt að Ísland er að auka pólitískt samráð við utanríkisþjónustu Evrópusambandsins. Samstarf við Evrópusambandið er gott og við höfum verið að efla það. Samstarf ESB og NATO hefur stóraukist núna frá innrásinni í Úkraínu og þetta samstarf hefur sannað gildi sitt, sérstaklega vegna Úkraínu, og við höfum áður átt samtal um það í þessum sal hvað þetta eru ólík hlutverk sem Evrópusambandið hefur og síðan Atlantshafsbandalagið. Ég hef lagt mig fram um að eiga gott samstarf og samtal og þétta það við Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Það hefur utanríkisþjónustan hér á Íslandi gert sömuleiðis og við munum halda því áfram þótt við eðli máls samkvæmt höfum ekki tekið þátt í þessari sendingu.