Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er bara algjörlega ósammála því að þetta sé óskýrt. Það liggur fyrir hvar við erum með aðild að alþjóðasáttmálum, alþjóðasamningum. Við erum með stefnu í þjóðaröryggismálum. Við erum með stefnu í þróunarsamvinnu. Hv. þingmaður bendir á að önnur nágrannaríki hafi verið að breyta um takt. Ég get alveg sagt að það eru auðvitað ákveðin mál þar sem við höfum aukið fókus og verið virkari, sem er þá að breyta um takt, en stefnan er svo gott sem sú sama. Upp til hópa myndi ég segja að löndin í kringum okkur séu sömuleiðis með sömu stefnu, fyrir utan Finnland og Svíþjóð sem ákváðu að ganga í Atlantshafsbandalagið og sækja um aðild.

Það sem hv. þingmaður er að spyrja um er: Af hverju er ekki skoðað að ganga í Evrópusambandið? Það liggur alveg fyrir að þrátt fyrir allt sem er í gangi í Evrópu eða í heiminum þá hefur það hagsmunamat ekki breyst að okkur sé betur borgið utan ESB heldur en innan þess. Hins vegar höfum við aukið samtal og þátttöku og þétt samstarfið við Evrópusambandið vegna til að mynda Úkraínu, bæði með þvingunaraðgerðum, fundum o.s.frv. Við finnum að hagsmunir þar fara saman; að Evrópusambandinu gangi vel og að okkur gangi vel. (Forseti hringir.) En ef hv. þingmaður er að spyrja hvort tilefni sé til að endurskoða það hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið þá finnst mér ekki eins og sakir standa tilefni til þess.