Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel í sjálfu sér fulla ástæðu til að halda aðeins áfram þarna áður en ég fer inn í ræðuna. Já, m.a. að skoða kosti og galla við að stíga það skref en það er svo ýmislegt annað sem við ættum að gera líka. Ég held að það myndi bara gera þessa umræðu hérna inni í þingsal fyllri og lyfta okkur upp úr skotgröfunum. Það má vel vera að ég komi til með að skipta um skoðun en það má líka vel vera að hæstv. utanríkisráðherra komi til með að skipta um skoðun. Við sjáum til.

Þessi skýrsla sem við ræðum annars hérna, hún er að mörgu leyti mjög gott yfirlit yfir framkvæmd utanríkismála. Ég vil bara nota tækifærið til að þakka hæstv. utanríkisráðherra og auðvitað starfsfólki ráðuneytisins fyrir þessa skýrslu. Ég get líka hrósað hæstv. ráðherra fyrir góðar upplýsingar til utanríkismálanefndar á undanförnum mánuðum og fyrir að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar á mjög erfiðum tímum af festu og sóma.

Þetta er stór málaflokkur og ráðherra fer mjög vítt yfir sviðið. Ég deili ýmsum skoðunum ráðherra en vissulega ekki öllum. Ég er t.d. hjartanlega sammála ráðherra um að Íslandi vegni best í opnum samskiptum við aðrar þjóðir og um gildi frjálsra viðskipta. Við erum hins vegar ekki endilega sammála í augnablikinu um hvernig þeim er háttað og hvaða sóknarfæri felist í því að breyta um stefnu.

Ræða hæstv. ráðherra snýst annars að miklu leyti um þann veruleika að það geisar stríð í Evrópu vegna árása rússneskra stjórnvalda á Úkraínu, frjálst og fullvalda ríki. Það dylst engum hér inni hvaða hagsmuni lítil þjóð eins og Ísland hefur af því að slíkt verði aldrei liðið og heldur ekki árás á þau gildi sem við höfum staðið vörð um á alþjóðavettvangi; frelsi, jafnrétti og umburðarlyndi. Það er því gott að vita að bæði hér inni og á Íslandi almennt er fólk næstum einróma varðandi stefnu íslenskra stjórnvalda þegar kemur að stríðinu. Það er auðvitað ekki síður róandi að samheldni er líka til staðar hjá öðrum Evrópuþjóðum, Bandaríkjunum og öðrum bandamönnum okkar gegn þessu viðurstyggilega árásarstríði Rússa. Það var auðvitað viðbúið að aðgerðirnar kostuðu einhverjar efnahagslegar fórnir en það er engu að síður mjög mikilvægt að samstaðan haldi, enda afleiðingar þeirra fórna mjög litlar í samanburði við þann hrylling sem úkraínska þjóðin þarf að upplifa.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðherra segir í ræðunni, að skýrslan er birt í skugga alvarlegustu stríðsátaka í okkar heimshluta frá seinna stríði og að það hafi valdið straumhvörfum í alþjóðapólitík og öryggisumhverfi. En það er akkúrat með hliðsjón af þeim orðum sem ég spurði áðan og spyr aftur, vegna þess að hér finnst mér skorta á röggsemi, skynsemi og einhverja framtíðarsýn hjá ríkisstjórninni — ég kalla t.d. eftir svari frá hæstv. ráðherra um það hvort ríkisstjórnin hyggist virkilega ekki ráðast í víðtækt hagsmunamat á stöðu Íslands og hvernig okkur sé best borgið til framtíðar, m.a. fullveldi okkar, í skugga þessara alvarlegustu stríðsátaka í okkar heimshluta sem hafa valdið straumhvörfum í alþjóðapólitík og öryggisumhverfi álfunnar, eins og ráðherra orðar það sjálf.

Ef það á að ráðast í slíkt hagsmunamat þá spyr ég: Hvernig er því háttað? Út af fyrir sig svaraði ráðherrann því áðan. Þá spyr ég, af því að það á ekki að ráðast í það: Af hverju í ósköpunum? Það eru allar nágrannaþjóðir okkar á fullu í þessari vinnu. Svíar og Finnar hafa gert það með því að sækjast eftir inngöngu í NATO, Danir með því að taka núna loksins fullan þátt í öryggissamstarfi Evrópusambandsins, Þjóðverjar hafa í sögulega mjög flókinni stöðu tekið nýjan pól í hæðina og Bandaríkjamenn eru að endurhugsa allar sínar áætlanir á norðurslóðum nú þegar Rússar og fleiri stórveldi eru að styrkja stöðu sína þar. En það er ekki að sjá að íslenska ríkisstjórnin hyggist taka nein markviss skref í að skoða þessi mál í gjörbreyttum heimi. Það væri þó það eina ábyrga í stöðunni. Vissulega samþykkti Alþingi nýja þjóðaröryggisstefnu á dögunum en hún er þó fyrst og fremst árétting á fyrri stefnu. Grunnstoðir hennar hvíla áfram á þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða samningum við Bandaríkin um varnir landsins. Vissulega voru skilgreindar fleiri ógnir, m.a. vegna náttúruhamfara, nýrrar tækni og loftslagsbreytinga, og jafnvel ógnar við sjálft lýðræðið, en um leið og það er rétt að viðurkenna þær ógnir, og þetta var framfaraskref, þá er í augnablikinu enn þá bara um að ræða upptalningar á blaði meðan aðgerðir gegn þeim liggja meira eða minna í lausu lofti.

Af því að hér verður mælt fyrir nýrri fjármálaáætlun í næstu viku og ég heyrði áðan hæstv. ráðherra segja að það væri enn þá verið að vinna hana, þá hlýtur að vera komin niðurstaða í því hvað kemur inn í málaflokk hæstv. ráðherra. Ég spyr því: Hvaða skref verða stigin til að tryggja að þjóðaröryggisstefnan sé meira virði en bara nýþornað blek á pappír? Ég verð að segja að mér finnst dapurlegt að upplifa það sem ég kalla bæði skeytingarleysi og kæruleysi stjórnarliða þegar kemur að því að meta næstu skynsamlegu skref í frekara fjölþjóðlega samstarfi. Ef mat á aðild að Evrópusambandinu er t.d. nefnt hér í þingsal þá er annaðhvort talað um að það sé ósmekklegt að velta slíku upp á meðan Úkraína heyr erfitt stríð eða bara að málið sé ekki á dagskrá. Um það fyrra er hægt að segja að allar vinaþjóðir okkar eru núna að endurhugsa og styrkja stöðu sína í öryggismálum með víðtækara fjölþjóðlegu samstarfi og svarið við síðara atriðinu leiðir auðvitað af hinu fyrra: Hvenær ættum við að ráðast í víðtækt hagsmunamat ef ekki núna þegar heimurinn hefur gjörbreyst?

Af því að ráðherra tók þessu eins og verið væri að ræða bara um Evrópusambandið þá skulum við ræða aðeins um Evrópusambandið. Vegna þess að það má lesa í skýrslunni að hagsmunir Íslands og ESB eru mjög samofnir á fleiri og fleiri sviðum þá skipum við okkur sem bandamenn í baráttu Evrópusambandsins fyrir svo mörgum málum. Við stöndum þétt við hlið þeirra þegar kemur að mikilvægum gildum, við erum samstiga þegar kemur að afstöðunni gegn Rússum og við fylgjum metnaði þeirra umfram allt þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsvánni. Ég gæti nefnt fleiri dæmi. Þar að auki tökum við upp í gegnum EES-samninginn meiri hluta af öllum þeim reglum og tilskipunum sem frá ESB koma, þ.e. þeim málaflokkum sem falla undir samninginn, svo að því sé haldið til haga. Þótt þær séu flestar til bóta fyrir íslenskan almenning og fyrirtæki þá eru bara aðrar sem eiga verr við. Þrátt fyrir að við höfum — og hægt er að hrósa fyrir það — bætt hagsmunagæslu okkar þá komum við einfaldlega of seint að borðinu. Við höfum minna um það að segja hvers eðlis breytingar eru og við ráðum stundum illa við að laga þær að íslenskum hagsmunum. Þar fyrir utan vitum við að Evrópusambandið, af því að við vorum að tala hér um mikilvægi viðskipta, gæti verið aðgangur að enn stærri mörkuðum fyrir íslensk fyrirtæki, tækifæri á stærri og stöðugri gjaldmiðli með, í venjulegu árferði a.m.k., lægra vaxtastigi en við erum vön. Ég hefði talið að umræðan um þetta ætti að taka svolítið pláss miðað við hvernig efnahagsástandið í landinu er. Ég held að í þessu gætu falist miklar úrbætur og fyrirsjáanleiki, bæði fyrir heimili og fyrirtæki, ekki síst á sviði nýsköpunar, sem hæstv. ráðherra talaði um og hrósaði umhverfi nýsköpunar. Það má hrósa mörgu þegar kemur að aðgerðum ríkisstjórnarinnar í umgjörð nýsköpunar en ég býst við að forsvarsmenn nýsköpunarfyrirtækja yrðu margir mér sammála um að fyrirsjáanleg mynt væri kannski það allra besta.

Síðast en ekki síst er náttúrlega ekki hægt að loka augunum fyrir því að Evrópusambandið mun taka að sér vaxandi hlutverk í öryggis- og varnarmálum og smáríki eins og Ísland á mikið undir að taka þátt í slíku samstarfi. Hæstv. ráðherra kom reyndar inn á það að hlutverk Evrópusambandsins og NATO væri ólíkt. Það er einmitt þess vegna sem Svíar, Finnar og Danir segja ekki annaðhvort heldur er hvort tveggja einungis nógu gott. Ég geri mér grein fyrir því að slíkri aðild, fyrst við erum að tala um hana, fylgja bæði kostir og gallar en ég geri mér hins vegar ekki grein fyrir því af hverju íslensk stjórnvöld vilja ekki láta gera víðtækt hagsmunamat á því þannig að umræðan hér kæmist tvö, þrjú skref áfram.

Þessi skýrsla er auðvitað stór og mikil og yfirferð yfir mjög mörg mál og lítið eftir af tíma. Ég ætla bara að nefna hér í lokin örfá atriði sem mér finnst skipta máli þegar kemur að utanríkismálum. Það er gott að sjá að stefnt er á aukið samstarf Norðurlandaþjóðanna. Við þurfum þá að muna að innan skamms munu þrjú af hinum fjóru stóru ríkjum verða innan bæði NATO og Evrópusambandsins, þ.e. 75% allra íbúa Norðurlandanna. Þetta þarf að hafa í huga þegar við höldum þeim við efnið í norrænu samstarfi. Við eigum líka að rækta samstarf okkar við nágrannana Færeyjar og Grænland. Fyrir utan gleðina sem það færir okkur þá eigum við mikilvæga sameiginlega hagsmuni þegar kemur að norðurslóðum, verndun vistkerfis sjávar, verndun hafsins og svo erum við alltaf að verða mikilvægari kostur fyrir stórveldin sem tefla um þetta svæði.

Ég er sammála hæstv. ráðherra þegar kemur að hagsældinni sem felst í frjálsum viðskiptum og þætti áhugavert að heyra frá ráðherra hvort henni þyki ekki verðugt markmið að fella niður fleiri tolla því að þó að tollar geti átt rétt á sér í ákveðnum tilfellum þá hækka þeir verð, þeir draga úr nýsköpun, þeir bjaga markaðslögmálin og utanríkisviðskipti. Það er vel hægt að styðja ákveðnar greinar, t.d. bændur, með öðrum leiðum, svo sem með beinum greiðslum og grænum styrkjum.

Af því að það er lítið eftir þá langar mig líka að koma aðeins inn á þróunarsamvinnu. Mann hryllir auðvitað við því að sjá þær skýrslur sem eru að birtast um fjölgun þeirra sem eru sárafátækir í heiminum. Það hefur orðið bakslag. Í fyrsta skipti í mjög langan tíma er aftur hærra hlutfall orðið sárafátækt og við þurfum að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar þar. Við erum vissulega að vinna mjög verðmætt starf, og má þakka starfsfólki utanríkisþjónustunnar fyrir það og mörg góð verkefni, en við erum enn of metnaðarlaus þegar kemur að framlögum Íslands til þróunarsamvinnu. Það er einfaldlega tímabært að flokkarnir nái saman um næstu skref og að við séum ekki föst í þessum 0,35% af þjóðartekjum sem er ekki nema helmingur af því markmiði sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sameinast um og Norðurlöndin fyrir löngu búin að ná fyrir utan kannski Finnland.

Síðan er náttúrlega mjög mikilvægt að við tökumst, með öðrum þjóðum, á við loftslagsvána. Það má ekki gleymast þó að tímabundin ófriður í Evrópu skyggi á flest annað í utanríkismálum. Þar erum við auðvitað að ræða um mál, ræða um áskorun sem, eins og margar stórar áskoranir mannkyns, verða aldrei leystar nema í miklu fjölþjóðlegri samvinnu heldur en hefur nokkurn tímann áður tíðkast.

Að lokum, herra forseti, þá er það niðurstaða mín alla vega að við þurfum að horfa opnum augum til umheimsins og leita leiða, hverjar sem þær nú eru, til þess að auka samvinnu okkar við aðrar þjóðir með beinni hætti en áður. Við eigum ekkert að óttast fjölþjóðlegt samstarf. Í því felst í rauninni okkar besta trygging fyrir fullveldinu. Við höfum líka sýnt það og hæstv. ráðherra hefur sýnt það að á okkur er hlustað. Ég hvet hana áfram til að nota sína sterku rödd þegar kemur að áherslu á frið, lýðræði, mannréttindi og umburðarlyndi í heiminum. Þar erum við sammála.