Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók því alls ekki þannig að hv. þingmaður væri ekki sammála áherslum og viðbrögðum okkar en vildi bara nota þetta tækifæri til þess að koma því fram að í þessu felst ákveðin stefna og þetta voru viðbrögð. Það er kannski hægt að spyrja: Erum við bara með viðbrögð, þurfum við ekki nýja stefnu? En ég myndi segja að vegna þess að við erum með trausta stefnu og við erum í góðu samstarfi og við tókum réttar ákvarðanir í gegnum áratugina þá erum við í rauninni að framkvæma þá stefnu sem er sterk og traust og góð. Við erum auðvitað nýbúin að endurskoða þjóðaröryggisstefnu en ég er ekki ósammála hv. þingmanni um það, ég held að það væri gott og heilbrigt fyrir almenning og fyrir stjórnmálin að við tækjum dýpra samtal um það hvaða breytingar hafa átt sér stað. Hvað þýða þær fyrir Ísland? Hvað þýða þær inn á við en ekki síður þegar kemur að hlutverki okkar út á við?