Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo margt sem ég tel að gæti gagnast okkur á Íslandi við slíka aðild. Eitt er náttúrlega efnahagslegi anginn. Annað er sú siðfræði sem við byggjum á sem Evrópuþjóð, afstaða gegn dauðarefsingum og alls konar gildi. Evrópusambandið mun í vaxandi mæli leggja áherslu á varnar- og öryggismál og eitt af því sem var mjög slæmt við Brexit var að Bretar veiktu í raun Evrópusambandið þegar kom að áherslum og getu til að tryggja netöryggi, og það mun Evrópusambandið reyna að byggja upp.

Ég held að það sé svo margt annað sem við hv. þingmaður höfum samþykkt í nýrri þjóðaröryggisstefnu sem ógnar öryggi okkar umfram þessar hefðbundnu stríðsógnir, sem ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á. Við erum að tína þarna inn hluti eins og lýðræði, loftslagsvána og tæknina. Á öllum þessum sviðum stendur Evrópusambandið miklu framar öðrum ríkjum eða ríkjasamböndum og þar eigum við svo sannarlega meiri samleið. Ég veit að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið mætir þessu að einhverju leyti, en ég held hins vegar að nýjustu dæmi um innleiðingar sem yfirvofandi eru sýni líka að við gætum gætt hagsmuna okkar mun betur kæmum við að málum strax á hugmyndastigi.