Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þessa spurningu. Jú, það er rétt, SV í Noregi er systurflokkur okkar og þau voru að skipta um stefnu á landsfundi sínum hvað það varðar að vilja vera í NATO. Skiptar skoðanir voru innan flokksins en það varð ofan á að styðja veruna í NATO.

En af því að hv. þingmaður spyr mig út í mína afstöðu, og minnar hreyfingar, til verunnar í NATO þá langar mig að byrja á að segja það varðandi kosninguna um stækkun NATO, varðandi inngöngu Svía og Finna, að þar sátum við mörg í þingflokki Vinstri grænna hjá, líkt og við höfum raunar gert í öðrum atkvæðagreiðslum um stækkun NATO. Við áttum okkur á því að þjóðum er það í sjálfsvald sett hvað þær vilja gera. Við teljum það hins vegar ekki vera til gagns að stækka hernaðarbandalag sem við viljum ekki vera í. Það er afstaða mín og það er afstaða Vinstri grænna. Við teljum að við eigum að hætta að vera aðilar í hernaðarbandalaginu NATO. Við teljum hins vegar að alþjóðleg samvinna skipti gríðarlegu máli og samvinna við þær þjóðir sem eru í NATO, en grunnurinn sem er lagður fyrir samstarfinu þar er ekki sá sem við kjósum.