Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:52]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Það er rétt að byrja á að þakka utanríkisráðherra og hennar fólki í utanríkisráðuneytinu fyrir þessa skýrslu sem við ræðum hér. Auðvitað er það svo að síðasta ár, 2022, markast af innrás Rússlands í Úkraínu. Þetta hræðilega innrásarstríð hefur áhrif á allt sem við ræðum raunverulega varðandi alþjóðamál í dag. Ég vil hins vegar segja, og það er mikilvægt, að samstaðan innan NATO-ríkjanna hefur sjálfsagt aldrei verið meiri heldur en við höfum orðið vitni að undanfarið ár, jafnvel aldrei áður í sögu bandalagsins, hugsa ég. Þar misreiknuðu Rússar sig og forseti Rússlands, Pútín, illilega um þessa innrás og hver viðbrögð yrðu innan NATO-ríkjanna. Það er ánægjulegt að sjá hvað Ísland kom fljótt og með öflugum hætti inn í þetta mál á fyrstu dögum innrásar Rússa í Úkraínu. Það verður að geta þess og mér þótti það töluvert aðdáunarvert og hugrekki af hálfu utanríkisráðherra þegar hún samþykkti flutninga vopnabúnaðar með flugvélum til að taka þátt í þessu og verja Úkraínu. Það er rakið ágætlega í skýrslunni að okkar framlög hafa mest snúist um mannúðaraðstoð og efnahagslegan stuðning og við höfum varið meira en 2 milljörðum árið 2022 til málefna Úkraínu, til varna landsins og í mannúðaraðstoð. Ég ætla kannski ekki að fara allt of djúpt í það. Þetta er mikil skýrsla og það eru aðrir punktar hér sem mig langaði að fara í með ítarlegri hætti. Ég held að okkar framlag síðan við uppbyggingu Úkraínu, ef við hugum að því, sé helst í orkumálum og endurnýjanlegum orkugjöfum, að við getum komið að málum þar þegar endurbyggingarstarfið hefst og síðan held ég að sérfræðiþekking sem við höfum aflað okkur um flutningskerfi raforku geti líka nýst mjög vel innan Úkraínu þegar landið verður byggt upp að nýju. Það er síðan áhugavert í þessu tilliti, í stóra samhengi hlutanna, hvað þetta hefur ýtt undir græn orkumál og hvernig orkukrísan hefur leitt til þess að hraða orkuskiptum í heiminum og er kannski eitt stærsta einstaka skrefið í því. Ég tel að við höfum flýtt þeim raunverulega um fjölda ára.

En yfir í annað. Björn Bjarnason og Jóna Sólveig Elínardóttir eru höfundar að skýrslu um norræn öryggis- og varnarmál, frá 2020, sem er áhugavert plagg. Það var óskað eftir því af norrænu utanríkisráðherrunum að farið væri í þessa vinnu og þetta er merkilegt plagg. En það er jafnvel þannig að þó að þessi skýrsla sé bara tveggja, þriggja ára þá væri örugglega fróðlegt að fara að huga að því að skoða hvaða áhrif breytingar með stríðinu í Úkraínu og aðrir þættir hafa haft. Það kæmi ekki á óvart að við myndum sjá nýja skýrslu um þessi mál tiltölulega fljótlega, eða endurunna. Síðan hafa orðið grundvallarbreytingar vegna aðildarumsókna Finna og Svía í NATO, sem er náttúrlega gríðarleg breyting. Við sáum verða til þessa breyttu afstöðu þessara ríkja og þegna þeirra og stjórnvalda á fyrstu dögum stríðsins. Á fyrstu vikunum þróuðust mál mjög hratt. Nú er mikill vilji í þessum löndum til að ganga í Atlantshafsbandalagið en við sáum það kannski ekki fyrir í byrjun árs í fyrra að það gæti orðið. Þetta eru grundvallarbreytingar og er líka gríðarleg breyting fyrir allt norrænt samstarf í varnarmálum og miklar breytingar sem við höfum séð þar, í NORDEFCO og samvinnu Norðurlanda. Við sjáum það á Norðurlandaþingi og í Norðurlandastarfinu að umræðan um öryggis- og varnarmál Norðurlandanna hefur náð inn fyrir veggi Norðurlandaþings og mun efla og styrkja, held ég, mikið þetta samstarf. Svo var náttúrlega fundur forsætisráðherra Norðurlanda 15. ágúst í fyrra í Ósló, hann markaði tímamót og sú yfirlýsing um samvinnu Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum. Við sjáum líka miklar breytingar hjá Dönum, nú ætla þeir að leggja í miklar fjárfestingar, 1,5 milljarða danskra króna í fjárfestingar í varnar- og öryggismálum með sérstakri áherslu á Færeyjar og Grænland og norðanvert Norður-Atlantshafið þannig að við erum að sjá þessi merki mjög víða. Nú erum við orðin hluti af sameiginlegu viðbragðssveitinni, Joint Expeditionary Force, sem er samstarf Bretlands, Hollands, Eystrasaltsríkjanna þriggja, Litháens, Lettlands og Eistlands, og svo Norðurlandanna, þannig að þarna eru tíu ríki saman í samstarfi sem mun efla líka þetta góða samstarf sem við erum að sjá í norðanverðri Evrópu.

Leiðarstefið í varnar- og öryggismálum í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er að tryggja sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Þarna bættist við öryggi borgaranna, varnir landsins og vernd stjórnkerfis, þessu var breytt í vinnslu málsins í þinginu. En þetta eru grunnatriðin í þjóðaröryggisstefnu Íslendinga sem við samþykktum hérna fyrir nokkrum vikum. Auðvitað er fjöldinn allur af áskorunum og ógnum sem eru tekin fyrir þar eins og netógnir, upplýsingaóreiða og varnir en hún tekst einnig á við síbreytilegt öryggisumhverfi og er ágæt og góð viðbót við þessa umræðu sem við erum að fást við. En auðvitað er hún alltaf til endurskoðunar og að hámarki mega líða fimm ár milli endurskoðunar.

Síðan langar mig að minnast á nýja grunnstefna Atlantshafsbandalagsins sem samþykkt var á leiðtogafundi bandalagsins í Madríd í júní sem er örugglega merkilegasta grunnstefnu bandalagsins fyrir utan sjálfan Washington-sáttmálann sem var skrifað undir 4. apríl 1949 í Washington. Þetta er öflug stefna og tekst af miklum krafti á við aðstæður eins og þær eru í dag þannig að það er mjög jákvætt fyrir allt samstarf innan NATO hversu öflug hún er. Þessi stefna undirstrikar samheldni og samstöðu bandalagsríkjanna sem byggist á tengslunum yfir Atlantshafið og lýðræðislegum gildum. Grundvallarmarkmið Atlantshafsbandalagsins er að tryggja sameiginlegar varnir og í stefnunni er lögð áhersla á að styrkja þurfi verulega fælingu, varnir og viðbragðsgetu bandalagsins sem er hryggjarstykki þeirrar skuldbindingar sem felst í 5. gr. stofnsáttmála þess. Þetta er mikil viðbót og ég hafði hugsað mér að fara meira inn á þetta á eftir í umræðu okkar um NATO-skýrsluna hér síðar í dag.

Það var ótrúleg stund að vera þátttakandi með utanríkismálanefnd í heimsókn til Helsinki í maí í fyrra, þann sama dag og Finnar og Svíar sóttu um aðild að Atlantshafsbandalaginu, nokkuð sem hefði verið nær óhugsandi fáeinum mánuðum fyrr og er kannski besta dæmið um hversu skjótar breytingar geta orðið þegar stórir atburðir gerast. Varðandi Ísland og Atlantshafsbandalagið felst framlag okkar til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins fyrst og fremst í þátttöku í samþættu loftrýmiseftirliti bandalagsins, loftrýmisgæslu og æfingum bandalagsins og bandalagsríkja. Ísland veitir liðsafla vina- og bandalagsþjóða aðstöðu og gistiríkjastuðning og tryggir öruggan rekstur og getu varnarmannvirkja, eftirlits- og samskiptakerfa og búnaðar. Síðan hefur markvisst verið unnið að því að efla þátttöku Íslands í herstjórnum bandalagsins til að auka upplýsingamiðlun um aðgerðir þeirra og þróun mála í nágrenni Íslands. Samvinnan við Bandaríkin um varnir og öryggi á grundvelli varnarsamnings ríkjanna fer líka vaxandi. Ein birtingarmynd þess er tímabundin viðvera kafbátaeftirlitsflugvéla á Íslandi og sameiginlegra varnaræfinga. Eins og við þekkjum hefur kafbátaeftirlitið farið mjög vaxandi á undanförnum árum og er orðið býsna veigamikið eins og það hefur verið núna allra síðustu ár og verið að fara í töluverðar framkvæmdir tengt þeirri starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Það má gera ráð fyrir, eins og kemur fram í skýrslunni, að samstarf við Bandaríkin og framlag Íslands til nauðsynlegs varnarviðbúnaðar Atlantshafsbandalagsins muni aukast á komandi misserum þannig að við erum í ákveðnum fasa núna sem verður áhugavert að fylgjast með á næstu árum. Hér þarf að vera rík og skýr stefna um það hvernig við viljum standa að málum.

Mig langaði síðan að fara í mál sem tengjast okkar utanríkismálum, koma rétt inn á loftferðasamninga og mikilvægi þeirra fyrir íslenska þjóð og hagsmuni landsins, sem gera íslenskum flugrekstraraðilum í millilandaflugi kleift að stunda þann öfluga flugrekstur sem við stundum, Íslendingar. Íslenskt samfélag er náttúrlega það samfélag í hinum vestræna heimi sem á einna mest undir því að þetta samstarf um loftferðasamningana sé gott. Við þurfum að efla það enn frekar og ná samningum við fleiri þjóðir, þá nefni ég t.d. Japan, það væri mjög æskilegt. Síðan er þetta risamál sem er að koma upp núna varðandi ETS-kerfið, millilandaflugið og Ísland. Það mál er reyndar ekki í þessari skýrslu en mun koma annars staðar fram, um EES-mál. Ég held að við séum nú sammála um það hér í þinginu og í þeim nefndum sem sá sem hér stendur situr í, umhverfis- og samgöngunefnd og utanríkismálanefnd, að hér er um geipilega mikilvægt og stórt mál að ræða sem snýst um grundvallarhagsmuni íslensks samfélags í dag, efnahagslega og út frá atvinnuhagsmunum líka. Ég get þó sagt að ég er ánægður með, miðað við sögu í mörgum öðrum málum, á hversu öflugan hátt okkar utanríkisþjónusta hefur verið að takast á við þetta mál, tiltölulega snemma í ferlinu miðað við svo margt annað sem við höfum fengist við síðustu ár. Þarna kemur kannski inn að á sínum tíma voru settar að mig minnir 230 milljónir aukalega fyrir tveim, þrem árum, mig minnir í fjárlög fyrir 2020, til að efla getu okkar í Brussel til að fylgjast með þeim málefnum þar sem okkar hagsmunir eru einna stærstir og mestir. Þótt við séum ekki með 70 manns þar eins og Norðmenn síðast þegar ég vissi þá erum við, held ég, með sjö, átta manns í dag til að sinna þessu og þetta virðist vera að sanna sig svolítið í þessu máli núna að það skiptir gríðarlegu máli. En við tökum þetta atriði betur fyrir síðar.

Að lokum langaði mig að minnast á mikilvægi þess að þingsályktunartillaga sem ég er framsögumaður að, um rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál, nái fram að ganga hér í þinginu. Hún gengur út á það að Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að hafa forgöngu um gerð samnings við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál.

Í greinargerð kemur fram að lýðræðisríki læra og laga sig að breyttum veruleika. Þann styrk verður íslenska þjóðin að nýta sér í þágu eigin öryggis og á grundvelli þekkingar sem reist er á fræðilegum grunni og fenginni reynslu. Önnur vopn hefur hún ekki. Er því lagt til að undir handarjaðri Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands starfi sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál á grundvelli samnings við utanríkisráðuneytið. Á setrinu verði stundaðar rannsóknir sem nýtast á hagnýtan og fræðilegan hátt fyrir þá sem undirbúa og taka ákvarðanir um hernaðarlegt og borgaralegt öryggi. Setrið verði fræðilegur og hagnýtur samstarfsvettvangur þeirra sem standa að samhæfingarstöð um almannavarnir auk öryggisdeilda einkarekinna fyrirtækja. Starfsmenn ráðuneyta og stofnana geti nýtt setrið til að dýpka eða víkka þekkingu sína. Þá tengist setrið erlendum rannsóknarstofnunum sjálfstætt og í alþjóðlegu samstarfsneti Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Hér er raunverulega verið að vitna í það sem kom fram í þjóðaröryggisstefnu Íslands frá 2016, þeirri fyrstu, um mikilvægi þess að efla getu, rannsóknir og þekkingu á öryggis- og varnarmálum hér á landi.