Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[17:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fer hér yfir og segir að það sé kyrrstaða í utanríkismálum sem ég er einlæglega mjög ósammála. Ég skil alveg pólitíkina sem verið er að spila, það er eins og endurmat eða hagsmunamat sé ekki raunverulegt nema það sé sett á dagskrá að fara yfir það aftur hvort Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið. En ég geri ekki athugasemd við það. Ég er ekki ósammála hv. þingmanni um að Evrópusambandið sé meira en hagvöxtur og einn markaður og þess vegna skil ég það til að mynda þegar Úkraína leggur á það áherslu að geta orðið aðili að Evrópusambandinu. Ég er alveg sammála því að Evrópusambandið hefur pólitísku hlutverki að gegna út frá stöðugleika í álfunni og verður til eftir erfiða tíma og það allt. En ég er ekki sammála því að Ísland geti ekki verið trúverðugt eða það sé kyrrstaða í utanríkismálum eða við séum ekki með öflugt hagsmunamat á okkar þætti og okkar staðsetningu, veru, gjörðum, aðgerðum, áherslum sem þjóð meðal þjóða án þess að fara í einhverja meiri háttar uppstokkun eða endurmat. Allar áætlanir hafa verið uppfærðar. Auðvitað er stór hluti af þessu sem verið er að gera eitthvað sem er ekki hægt að tala alveg um eins og maður myndi vilja hér í ræðustól. Við erum nýbúin að endurskoða þjóðaröryggisstefnu. Við höfum aukið samstarf bæði við JEF, NORDEFCO, Bandaríkin og þétt enn frekar samstarf og þátttöku og fundarsetu o.s.frv. innan Atlantshafsbandalagsins. Ég nefni líka þá þætti sem við fórum í á fyrstu sólarhringunum einmitt eftir að Rússland réðst inn í Úkraínu þar sem við höfum brugðist hratt við og tekið ákvarðanir sem endurspegla (Forseti hringir.) þá breyttu stöðu sem uppi er. En það er einfaldlega okkar mat (Forseti hringir.) að gera ekki athugasemd við það mat Atlantshafsbandalagsins að hér þurfi ekki fasta viðveru eins og sakir standa.