Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[17:33]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í inngangsorðum hæstv. utanríkisráðherra í skýrslunni er að finna góða samantekt á viðsnúningnum sem hefur orðið í utanríkismálum á undanförnum misserum, á því hvernig við einblíndum áður á leiðir til að þétta samstarf og auka hagsæld með alþjóðlegum viðskiptum en fylltumst skyndilega tortryggni. Þrátt fyrir það hafa alþjóðlegar sviptingar líka haft jákvæða hluti í för með sér. Þannig hefur Atlantshafsbandalagið, öflugasta varnarbandalag heims, styrkt sig og þétt raðirnar; líkt þenkjandi ríki sömuleiðis, sem hafa verið samstiga um að einangra stríðsglæparíkið Rússland í alþjóðlegu samstarfi. Stuðningur þjóða við Úkraínu hefur verið til fyrirmyndar, þó að hann hafi verið mismikill og einhverjir hafi hikað á leiðinni. Ísland getur verið stolt af stuðningi sínum, m.a. mannúðaraðstoð og framlögum auk þátttöku í þvingunaraðgerðum.

Önnur varhugaverð þróun sem ekki verður hjá komist að nefna er afturför mannréttinda, ekki síst kvenréttinda. Jafnvel í nánum samstarfsríkjum okkar hefur orðið slík afturför og er grátlegt að verða vitni að því. Sem land þar sem kynjajafnrétti er mest í heimi, ár eftir ár, ber okkur rík skylda til að tala fyrir þeim sjónarmiðum á alþjóðavettvangi. Önnur réttindabarátta sem er mikilvægt að við höldum á lofti er barátta hinsegin fólks, en þar hefur því miður víða orðið bakslag að undanförnu. Við erum eitt þeirra ríkja sem mynda jafnréttisbandalagið sem stendur vörð um þessi réttindi, en við þurfum sömuleiðis að vinna ötullega að réttindabaráttunni í samstarfs- og áhersluríkjum okkar í þróunarsamvinnu þar sem réttindi hinsegin fólks eru fótum troðin, ríkjum eins og Úganda og Palestínu. Þar höfum við sterka rödd og getum látið gott af okkur leiða, m.a. í gegnum samvinnu við frjáls félagasamtök.

Fyrst ég er farin að tala um þróunarsamvinnu þá hefur verið virkilega sorglegt að fylgjast með þeirri gríðarlegu afturför sem aðgerðir til að sporna við heimsfaraldri þýddi fyrir þróunarsamvinnu. Ég er mikill aðdáandi íslenskrar þróunarsamvinnu, enda hef ég séð með eigin augum hversu mikilvæg hún er og að framlag okkar á þeim vettvangi skiptir máli. Þar, eins og svo víða, vinnur starfsfólk íslensku utanríkisþjónustunnar framúrskarandi starf. Meðal þeirra samstarfslanda okkar sem ég hef heimsótt er einmitt Síerra Leóne. Ég má til með að fagna þeirri viðbót og bíð spennt eftir opnun sendiráðs okkar þar. Ég er líka viss um að landið sé sérlega vel til þess fallið að framlag okkar þar nýtist vel. Þar vonast ég til að barátta gegn pyndingum á konum í formi umskurðar verði ofarlega á forgangslista hæstv. ráðherra, en um 83% kvenna í Síerra Leóne eru umskornar og trónir landið ofarlega á lista yfir þau lönd sem eru hvað iðnust við þetta ofbeldi. Það er mikilvægt, eins og fram kemur í skýrslunni, að við nýtum sérþekkingu okkar til hins ýtrasta í þróunarsamvinnu, m.a. í umhverfismálum og jafnréttismálum.

Það er sömuleiðis mikilvægt að við höldum áfram að hvetja atvinnulífið til þátttöku eins og þróunarlöndin kalla einmitt eftir. Þar er heimsmarkmiðasjóðurinn, sem við Sjálfstæðismenn komum á fót, mikilvægur vettvangur og virk þátttaka og aukinn áhugi íslenskra fyrirtækja á málaflokknum vekur bjartsýni. Þá eru frjáls félagasamtök auðvitað burðarafl í íslenskri þróunarsamvinnu og þátttaka þeirra er nauðsynleg til að stuðla að árangri og fjölbreyttum verkefnum. Ég má til með að lýsa aftur yfir sérstakri ánægju með áframhald ungliðaverkefnis Sameinuðu þjóðanna, sem við Sjálfstæðismenn endurvöktum í ráðuneytinu. Ég er viss um að af því er gagnkvæmur ávinningur.

Yfir í aðra sálma. Ég er svo lánsöm að eiga sæti í þingmannanefnd EES. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur stuðningsmenn EES-samstarfsins, okkur Evrópusinna, að sjá hversu stöndugur samningurinn er á umbrotatímum eins og þeim sem við lifum. Við virðumst hafa rankað við okkur í hagsmunagæslu í samstarfinu og það er ánægjulegt hversu stóran þátt Sjálfstæðismenn eiga í því. Í þeim efnum er gríðarlega mikilvægt að öll ráðuneyti hafi sinn fulltrúa í Brussel og ég vona að hæstv. ráðherra leggi mikla áherslu á að svo verði. Útflutningur okkar stendur undir lífskjörum okkar og hagsæld. Við þurfum því að vera virkir þátttakendur í alþjóðaviðskiptum og róa að því öllum árum að gera hagfellda samninga í þeim efnum.

Að lokum verður ekki hjá því komist að minnast aftur stuttlega á öryggis- og varnarmálin. Það er jákvætt hversu vel hefur verið hlúð að málaflokknum undanfarin ár og að framlög til hans hafi hækkað. Við stöndum enda frammi fyrir fordæmalausum áskorunum, eins og segir í skýrslunni. Eins og ég sagði í byrjun hefur samstaða og samheldni líkt þenkjandi þjóða verið til fyrirmyndar á viðsjárverðum tímum. Það er gríðarlega mikilvægt að við séum virkur og ábyrgur samstarfsaðili gagnvart okkar samstarfsríkjum í öryggis- og varnarmálum og að við skorumst ekki undan okkar skuldbindingum í þeim efnum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innganginn og hv. þingmönnum fyrir góða umræðu hér í dag.