Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[17:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Þrátt fyrir að ég sitji ekki lengur í hv. utanríkismálanefnd þá finnst mér ekki annað hægt en að koma hér upp og taka til máls undir þessum lið, því að ég hef margoft sagt það síðan ég tók sæti á þingi að við ræðum of sjaldan um alþjóðamál. Því finnst mér full ástæða til að taka til máls hér og þetta samtal sem átt hefur sér stað hér í dag hefur verið gott.

Mig langar að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og hennar framsögu hér og ætla að byrja á því sem við höfum öll rætt og er alltumlykjandi þegar kemur að þessum alþjóðamálum. Það er þetta hryllilega stríð sem á sér stað í Úkraínu þar sem Rússar hafa brotið á og eru í raun í stríði gagnvart öllu því sem við trúum á og líkt þenkjandi þjóðir, þ.e. lýðræði, frelsi og alþjóðalög. Það er í rauninni ótrúlegt að hugsa til þess að árið 2023 stöndum við í þeim sporum að það sé stríð í Evrópu. Ég sagði það örugglega síðast þegar við ræddum þessi mál að maður sá kannski fyrir sér að við gætum verið að takast á við alls konar fjölþáttaógnir, en skriðdrekar, byssur, loftárásir og annað var eitthvað sem ég leyfði mér að vona að við myndum ekki upplifa.

Mig langar í þessu samhengi að segja það sem ég sagði í ræðu á þingi Norðurlandaráðs núna í síðustu viku, þar sem Eystrasaltsþingið var sérstakur gestur okkar, að það eigi raunverulega að biðja Eystrasaltsþjóðirnar afsökunar á því að við höfum ekki hlustað. Á síðustu árum og áratugum hafa þær verið að tala um nágranna sína, Rússa, og óttann við slíka innrás. Þegar maður fer yfir þessa sögu aftur á bak síðustu tvö árin eða svo, þá er ótrúlegt hvað þetta kom okkur, alþjóðasamfélaginu, að óvörum svona heilt yfir. En á sama tíma voru nágrannarnir og þeir sem kannski best þekkja og bjuggu við þessa ógn lengi að vara við henni.

Virðulegur forseti. Ég ætla að segja það í þessu samhengi að ég er einstaklega stolt af utanríkisráðherranum okkar í þessari orðræðu og umfjöllun allri um stríðið í Úkraínu og ég er rosalega þakklát og glöð að vera hluti af íslenska þinginu, sem hefur staðið þétt saman og þétt á bak við ráðherrann okkar, og þeim einhug sem ríkt hefur í þessum sal um stuðninginn við Úkraínu. Ég treysti því og vona að svo verði áfram. Ég fæ eiginlega bara gæsahúð þegar ég hugsa til myndanna af okkar konum í Úkraínu, þar sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra heimsóttu Zelenskí. Við sáum þessar fréttamyndir og ég fylltist ákveðnu stolti og held að þessi skref séu ofboðslega mikilvæg sem við höfum stigið í stuðningnum og hvet okkur áfram í því.

Að því sögðu þá langar mig í raun, vegna þess að þetta er stuttur tími og auðvitað af mörgu að taka, bara að fókusera hér á eitt málefni sem er mér kært. Það eru norðurslóðir. Ég þreytist ekki á að minna okkur á að Ísland er norðurslóðaríki og við eigum ekki bara að tala um norðurslóðir og málefni tengd þeim á hátíðardögum, því allt sem við erum að gera og fjalla um tengist að einhverju leyti norðurslóðum vegna þess að við erum norðurslóðaríki. Innrás Rússa í Úkraínu minnir okkur líka á það að Rússar eru nágrannar okkar á norðurslóðum. Þegar við horfum á landakortið með annarri vídd en við erum kannski vön — mér finnst ágætt að horfa hér á myndirnar í skýrslunni, sem eru sambærilegar kortinu sem hangir uppi á skrifstofu hjá mér — ofan á hnattkringluna, þá sér maður heiminn aðeins í öðru ljósi með norðurslóðavíddinni. Ég veit ekki hvort við áttum okkur á því hversu ofboðslega miklar breytingar eru að verða á þessu svæði með áhrifum loftslagsbreytinga. Við sjáum að meðalhitinn á þessu svæði er að hækka allt að fjórum sinnum hraðar en annars staðar og þá er ísinn auðvitað að bráðna sem aldrei fyrr. Í því felst auðvitað mikil ógn fyrir lífríkið allt þarna, því það er allt að breytast. Það kann líka vel að vera að í því felist tækifæri og ég held líka að við Íslendingar þurfum að vera opin fyrir því.

Því miður er það þannig að á síðustu áratugum hafa ekki öll norðurslóðaríkin verið að horfa á þennan vinkil. Það norðurslóðaríki sem hefur kannski verið duglegast að velta þessu fyrir sér eru nágrannar okkar í norðri, þ.e. Rússar, sem hafa byggt upp töluverð hernaðarmannvirki, fjárfest í ísbrjótum og öðru einmitt til þess, að þeirra sögn, að verja landamæri sín þar sem ísinn er að bráðna og landamæri þeirra eru svolítið að opnast fyrir þessu opna hafi. Það er svo mikilvægt í þessu samhengi að allt sem er að gerast á norðurslóðum tengist okkur svo beint. Þetta eru auðvitað umhverfisáhrifin, hvað vitum við um hvað gerist varðandi fiskstofna okkar og annað þegar hitastig sjávar breytist? Ísinn bráðnar, siglingaleiðir opnast og umferðin verður meiri á þessu svæði.

Ég held að við Íslendingar höfum staðið okkur vel í því að tala fyrir og tala um þessi mál og mig langar sérstaklega að nefna Hringborð norðurslóða, þá miklu ráðstefnu sem er haldin árlega í Hörpu og er auðvitað svolítið barnið hans Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands. Maður sér þar svart á hvítu hve mikill áhugi er á þessu svæði frá ríkjum sem eru langtíburtistan, ef ég leyfi mér að orða það með þeim hætti. Þá nefni ég t.d. sérstaklega Kína, í ljósi þess að einmitt í dag er Xi Jinping að hitta stríðsglæpamanninn Pútín á slóðum hans. Á sínum tíma var Kína búið að skilgreina sig á ensku sem „near-Arctic state“, ríki sem væri nálægt norðurslóðum, sem er nú eiginlega býsna erfitt að færa einhver rök fyrir þegar horft er á landakort. En það er alveg ljóst að áhugi úr austri hefur verið mikill á þessu svæði. Það er auðvitað hægt að finna ýmsar ástæður fyrir því, m.a. að þegar ísinn bráðnar styttist flutningaleiðin frá Asíu til Evrópu um 40%. Því er alveg skiljanlegt að stærstu framleiðsluríki heims, sem herja á útflutning til Evrópu og Ameríku, sjái mikil tækifæri í því.

Virðulegur forseti. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að ég hef töluverðar áhyggjur af því með hvaða hætti best er að ramma inn samstarfið um norðurslóðir. Nú er það skýrt í okkar stefnu um norðurslóðir, sem var þingsályktun sem við samþykktum á síðasta þingi, að okkur ber að tryggja það áfram að þetta verði lágspennusvæði en spennan hefur svo sannarlega aukist á norðurslóðum. Eftir innrásina í Úkraínu hefur auðvitað allt samstarf við Rússland verið sett á ís, eðlilega, og við vinnum ekki með stríðsglæpamönnum. En í ljósi þess að Norðurskautsráðið er mjög sérstakur vettvangur þar sem öll norðurskautsríki eiga sæti við borðið — það er auðvitað vettvangur þar sem ekki var rætt um varnar- og öryggismál og það er kannski þess vegna sem það gekk ágætlega — þá hafa ofboðslega mikilvæg samtöl og mikilvægt samstarf átt sér stað á þeim vettvangi. Ég er alveg ofboðslega svartsýn á að það samstarf geti nokkurn tímann orðið samt aftur. Í fallegu myndinni, þegar stríðinu lýkur í Úkraínu og Rússar draga sig til baka af þeirra landi, þá munum við enn þá vera með þá staðreynd að öll hin norðurskautsríkin verða vonandi orðnir aðilar að NATO, nema Rússland. Því sé ég ekki þessa dýnamík sem verið hefur í Norðurskautsráðinu einhvern tíma geta mögulega komið til baka. Ég nefni það hér vegna þess að ég held að það sé íhugunarefni fyrir okkur hvernig við viljum stýra þeirri orðræðu út frá okkar hagsmunum; hvar best sé að hýsa samtalið um norðurslóðir. Ég er reyndar á þeim stað að við eigum að taka það sem víðast, við eigum að taka það í Norðurlandaráði en líka í öðru alþjóðasamstarfi.

Virðulegur forseti. Tíminn er útrunninn. Það væri hægt að segja miklu meira en ég ætla bara að þakka fyrir þessa góðu umræðu sem átt hefur sér stað um þessa skýrslu.