Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[17:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu hér í þessu mikilvæga málefni og þakka sérstaklega fyrir þessa skýrslu utanríkisráðherra um alþjóðamál fyrir árið 2022. Skýrslan er ákaflega vel unnin að mínum dómi. Hún er mjög vel framsett og ég fagna þessum myndræna þætti sem dregur upp ýmsar tölur og stuðning við ýmis verkefni. Það er búið að leggja mikla vinnu í skýrsluna sem ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir sem komu að þeirri vinnu.

Ég vil auk þess bara þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir afar góða frammistöðu í hennar starfi á þessum erfiðu tímum sem við þekkjum öll eftir að stríðið í Úkraínu hófst. Eftir innrás Rússa í Úkraínu þá hefur margt breyst til framtíðar í Evrópu og við erum þátttakendur í því að taka þátt í þeirri samheldni þjóða og standa með Úkraínumönnum. Ég vil nota sérstaklega tækifærið og þakka utanríkisráðherra fyrir afar góða frammistöðu á erlendum vettvangi og hér heima hvað þetta varðar.

Það er af mörgu að taka í þessari skýrslu og tíminn er naumur. Ef ég fletti hér aðeins í gegnum skýrsluna og byrja á að koma aðeins inn á þróunarsamvinnuna þá ætla ég að halda þá sömu ræðu og ég hef ávallt haldið þegar skýrsla utanríkisráðherra er hér til umfjöllunar, en hún lýtur að þessum samstarfslöndum okkar í þróunarsamvinnunni, Malaví og Úganda og svo er Sierra Leone einnig þar á meðal. Við erum að gera mjög góða hluti í þessum löndum og ég fagna því. En það er eitt sem ég vil koma hér á framfæri, sem hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir kom einnig aðeins inn á: Í þessum löndum er því miður sá ósiður og í raun og veru það ofbeldi sem felst í barnahjónaböndum og umskurði kvenna. Þetta á við í öllum þessum löndum. Ástandið er sérstaklega slæmt í Sierra Leone. En ef við tökum bara Malaví, sem við þekkjum mjög vel, við erum búin að vera lengi í samstarfi við þetta ágæta land og látið gott af okkur leiða þar, þá má geta þess að þar eru barnahjónabönd allt upp í 50%. Þar eru um tæplega 30% kvenna á aldrinum 15–49 ára umskornar. Þetta er svipuð tala í Úganda en hæst er hún í Sierra Leone, eins og hér var nefnt. Þar eru barnahjónabönd einnig algeng, en u.þ.b. 83% kvenna í Sierra Leone eru umskorin. Þetta er náttúrlega alveg skelfilegar tölur og ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til þess að vinna hörðum höndum að því að koma því á framfæri við þessi stjórnvöld að þetta sé algjörlega óásættanlegt og leggja áherslu á að ef við ætlum að halda þessu samstarfi áfram þá verði þessi stjórnvöld að taka sig á í þessum efnum, svo það sé sagt hér.

Mig langaði aðeins að koma inn á samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum ríkjum, lagaumhverfi fyrirtækja og það að við þurfum stöðugt að vera vakandi yfir því viðfangsefni. Það eru einföld atriði sem geta gert það að verkum að samkeppnisstaða Íslands sem lands tækni og nýsköpunar verði ekki eins öflug og þau ættu að vera. Íslenskt fyrirtæki getur orðið af talsverðum fjármunum ef það er að selja þjónustu eða leyfi til erlends aðila þar sem ekki er til staðar tvísköttunarsamningur. Ísland er í samanburði við nágrannalönd okkar með afar fáa tvísköttunarsamninga, eða samtals 45, á meðan Danmörk er með 76, Noregur 87, Holland 95 og Bretland 126. Þetta er því miður slæm staða fyrir íslenskt viðskiptalíf, enda þurfum við annaðhvort að selja vörur á hærra verði eða fá minna í vasann miðað við samkeppnisaðila í okkar helstu samkeppnislöndum. Óhagstætt umhverfi fyrirtækja á Íslandi skekkir samkeppnisstöðuna og við eigum að vinna hörðum höndum að því að bæta þetta, að fjölga þessum tvísköttunarsamningum. Þeir eru ákaflega mikilvægir fyrir íslenskt viðskiptalíf og samkeppnishæfni Íslands.

Annað sem ég vildi koma inn á er að eins og við þekkjum þá á Ísland samstarf við ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og framlög Íslands til mannúðaraðstoðar eru veitt með ýmsum hætti, hvort heldur er í formi húsaskjóls, matvælaaðstoðar, heilbrigðisþjónustu, grunnkennslu o.s.frv. En það sem ég vildi aðeins ræða hér og benda á varðar þessa útsendu sérfræðinga okkar. Kostnaður við hvern útsendan sérfræðing er töluverður en það er mikilvægt í þessu sambandi að við nýtum þá fjármuni sem best sem eru ætlaðir í þetta. Ég tel að við eigum að horfa til þess að útsendu sérfræðingarnir séu m.a. og sérstaklega heilbrigðisstarfsfólk; læknar, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, svo dæmi sé tekið. Það er brýnt að fjölga þessum sérfræðingum. Við eigum frábært heilbrigðisstarfsfólk sem getur verið okkur svo sannarlega til fyrirmyndar á erlendum vettvangi og það er svo sannarlega þörf fyrir þessa útsendu starfsmenn og sérstaklega þá sem eru heilbrigðismenntaðir.

Það verður ekki hjá því komist að ræða að sjálfsögðu um það sem hefur verið efst á baugi í þessari umræðu hér, þ.e. varnarmálin. Við Íslendingar höfum þessa sérstöðu að meðal vestrænna þjóða þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, að við erum herlaus þjóð og þjóð án vopnaframleiðslu, en erum í varnarbandalagi sem byggir á hernaðarlegum grunni og í því felst að sjálfsögðu sérstaða. Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna og aðildin að Atlantshafsbandalaginu eru grunnþættir í samþykkt þjóðaröryggisstefnu Íslands. Við eigum allt okkar undir þessu samstarfi. Þess vegna erum við að tryggja að hér sé ávallt sá viðbúnaður til staðar þarf ef hingað verður kallaður til herafli á ófriðartímum. Þetta er grundvallaratriði.

Við þurfum auk þess að auka þekkingu þeirra íslensku starfsmanna sem starfa að málaflokknum og íslenskir starfsmenn verða að öðlast þekkingu, reynslu og innsýn sem nýtist í verkefnum, æfingum og stefnumörkun hér heima fyrir. Þannig eykst okkar eigin geta og sérfræðiþekking í öryggis- og varnarmálum á Íslandi. Með því að kosta sérfræðinga til starfa er stutt við starf bandalagsins og um leið öðlumst við mikilvæga reynslu.

Ég legg að sjálfsögðu áherslu á það líka að við stöndum við okkar skuldbindingar þegar kemur að varnarbúnaði, aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli, viðhaldi á mannvirkjum o.s.frv., en það er náttúrlega forsenda þess ef hér kæmi til ófriðartíma þá sé sú aðstaða til staðar sem þarf til að bregðast við þeirri ógn.

Tíminn líður hratt, frú forseti. Mig langaði aðeins að koma inn á eitt atriði, ákveðin tímamót sem eru um þessar mundir, en það eru 20 ár liðin frá innrásinni í Írak. Ég heimsótti í Írak fyrir ekki svo löngu síðan. Það var að mörgu leyti mjög fróðleg ferð sem ég get komið inn á ef tíminn leyfir. En ég tel, og ég held að það séu mjög margir sammála því, að þetta Íraksstríðið hafi verið misráðið og þær hörmungar sem því fylgdu. Það leiðir hugann að því hve tæpt það er, frú forseti, að treysta í blindni á vestrænar forystuþjóðir ef tekin er afstaða til einstakra alþjóðamála af Íslands hálfu. Það voru skelfileg mistök sem áttu sér stað í Írak, m.a. sökum vanþekkingar og fyrirhyggjuleysis og hundruð þúsunda hafa látið lífið. Líf milljóna manna var sett úr skorðum og landið varð gróðrarstía hryðjuverkamanna. En það voru, þegar upp var staðið, engin gereyðingarvopn í Írak og engin tengsl við hryðjuverkasamtökin al Kaída. Þannig að það var ráðist inn í þetta land á fölskum forsendum. Eins og ávallt þá eru það almennir borgarar, konur og börn, sem þjást mest. Og eins og ég segi enn og aftur: Við verðum því að fara mjög varlega í því að treysta í blindni vestrænum forystuþjóðum ef við tökum afstöðu til einstakra mála eins og í þessu máli.

Það er margt fleira, frú forseti, sem ég hefði viljað koma inn á. Ég fagna t.d. opnun sendiráðsins í Póllandi og tel að næsta skref í þeim efnum ætti að vera opnun sendiráðs á Spáni.(Forseti hringir.) Þar eru fjölmargir Íslendingar.

En að lokum þakka ég fyrir þessa skýrslu og þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram.