Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:33]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Bergþóri Ólasyni, og hæstv. utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fyrir umræðuna hér í dag. Ljóst er að Fit for 55-pakkinn gæti, sökum landfræðilegrar stöðu Íslands, leitt til samkeppnislegs óhagræðis fyrir flugfélög sem reka tengimiðstöð á Íslandi fyrir flug milli Evrópu og Norður-Ameríku. Meðaláfangalengd á flugi frá Íslandi til Evrópu er 2.200 km en meðaláfangalengd innan ESB er 800 km. Þetta eitt og sér leggur ósanngjarna aukabyrði á Ísland ef af verður. Þar með er kostnaðargrundvöllur flugs frá Íslandi alltaf hærri. Á sama tíma hefur verð á kolefnisheimildum margfaldast undanfarin ár. Þetta gæti skapað hvata til að komast fram hjá tengimiðstöðinni í Keflavík og fara í beint flug yfir Atlantshaf, ekki síst meðal flugfélaga sem starfa utan Evrópu og þar með utan ETS-losunarkerfisins. Tillögurnar fela þannig í sér hættu á svokölluðum kolefnisleka eins og hæstv. forsætisráðherra hefur bent á. Hækkun verðs á flugmiðum innan EES gæti beint farþegum til ríkja og flugfélaga utan EES sem ekki lúta reglum sem hefðu sambærileg kostnaðaráhrif með tilheyrandi kostnaði fyrir loftslagið.

Nú stöndum við frammi fyrir gríðarlega íþyngjandi framkvæmd sem ugglaust mun hafa miklar afleiðingar fyrir íslenskan efnahag sem og loftslagið. Því er vert að brýna stjórnvöld að hvika ekki frá kröfum sínum um að tillit sé tekið til sérstöðu Íslands og fylgja því fast eftir.

Að því sögðu, virðulegur forseti, þá eru markmiðin skýr í þessum pakka. Við þurfum að minnka losun frá flugi og taka fyrir ókeypis losunarheimildir. Að mínu mati er mikilvægast að minnka losun frá flugvélum. Næstu skref hljóta því að vera að koma fluginu í orkuskipti og það sem fyrst.