Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vona að klukkan bili að nýju því að það eru ansi mörg atriði sem ég myndi vilja koma hérna inn á. Ég veit að við erum öll í pólitík og það er allt í lagi að saka mig eða þá sem á undan mér voru um sofandahátt og annað slíkt. En ég get fullvissað þing og þjóð um að það er ekki mikið til í því. Og ef ég má taka örlítinn þátt í því að finna sökudólga eins og allmargir þingmenn hafa hér gert þá vil ég nú bara benda á það að flugið var fellt undir ETS-kerfið með breytingagerð Evrópusambandsins frá 2008 og viðskiptakerfið 2007 náði bara til staðbundins iðnaðar, og á þessu tímabili var hv. þingmaður sem sakar stjórnvöld um sofandahátt sjálfur umhverfisráðherra og ég var 19 ára menntskælingur. Þannig að við skulum halda því öllu saman til haga. Þetta er langt ferli og margir hafa haft ýmsa hatta sem hluti af stjórnvöldum eða með ráðherrahatta en það sem skiptir öllu máli er að við séum sameinuð í því gagnvart Evrópusambandinu og öðrum aðildarríkjum að við ætlum okkur að ná viðunandi árangri í þessu máli til þess að koma í veg fyrir það að hagsmunir Íslands verði skaðaðir að nokkru leyti. Það er nú þannig að við höfum nánast undantekningarlaust fengið aðlaganir í EES-ferlinu en ekki í því ferli sem nú er á lokametrunum þar sem við lögðum á okkur vinnu til að ná fram ákveðnum breytingum sem að hluta til náðust í því sem hv. þingmaður spurði um í annarri spurningu sinni, varðandi það sem innviðaráðherra vitnaði til þegar kemur að Kýpur og Möltu og varðar verðjöfnun sjálfbærs flugvélaeldsneytis og venjulegs eldsneytis og það er svona ákveðin viðurkenning á sérstöðu eyríkja sem við svo sem tökum vel í en dugar bara ekki til. En við sjáum hins vegar að okkar fyrirtæki eru komin á fullt að vinna að grænni framtíð og flugvélar munu á endanum fara yfir í að vera frekar með sjálfbært eldsneyti. Við getum framleitt það sjálf og það er framtíðin, ekki bara af því að Evrópusambandinu finnst það heldur af því að markaðurinn sjálfur er að kalla eftir því og fólk sem flýgur vill sjá slíkar tækniframfarir. Við ætlum hins vegar ekki að stórskaða okkar hagsmuni í einhverju millibilsástandi þangað til að það verður komið. Og jafnvel þótt við færum á fullt í að framleiða slíkt myndi það ekki einu sinni duga til. En ég hins vegar vona að við förum að gera það (Forseti hringir.) og í samráði við ríkisstjórn hef ég skipað starfshóp til að halda utan um viðræður við Evrópusambandið um málið í nánu samstarfi við sendiráð okkar í Brussel og umhverfisráðherra hefur sömuleiðis skipað starfshóp til að skoða tækifæri okkar í framleiðslu á eldsneyti. Hins vegar verð ég að benda á, vegna þess að það er búið að tala mikið um að það hefði átt að vera hægt að sjá þetta fyrir varðandi ETS-kerfið, að verðið var einfaldlega allt annað í upphafi. Það er ekki hægt að segja að þetta hafi mátt sjá fyrir (Forseti hringir.) vegna þess að breytingarnar í ferlinu voru þannig að það breytti okkar afstöðu fyrirvaralaust.