Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

lyfjakostnaður og tímabil lyfjakaupa.

674. mál
[17:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir þessa góðu fyrirspurn. Þetta voru þríþættar spurningar. Í fyrsta lagi mjög athyglisverð spurning um það hvort fækkun hafi orðið á því að fólk leysi út lyfjaskammta á áætluðum tíma þegar nýtt tímabil lyfjakaupa hefst og greiða þarf fullt verð, allt upp í 22.000 kr. fyrir lyfjaskammt. Þá kemur það í ljós þegar grannt er skoðað — og sem viðbrögð við þessari fyrirspurn, mjög gott — að það er ekki hægt að taka út úr lyfjagreiðslukerfi Sjúkratrygginga fjölda þeirra einstaklinga sem leysa út lyfjaávísun á þeim tíma, þ.e. rétt fyrir lok greiðslutímabils, sem er algjör grunnur að því að ná einhvern veginn utan um þetta, mér finnst mjög gott að fá þessa spurningu þess vegna. Það hafa þó verið fregnir um að einstaklingar séu að gera slíkt til að fá lyf á lægra verði. Þetta finnst mér ástæða til að skoða betur á þessum grunni af því að þetta skiptir augljóslega máli. Mér finnst þó styrkur í kerfinu að lyfjagreiðslutímabilið hefst ekki fyrr en þú kaupir fyrstu lyfin, þ.e. ekki á almanakstímabili. Það kemur svona til móts við þetta en nú er ég að gefa mér hluti, auðvitað þarf maður gögnin.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hvort það komi til skoðunar að breyta þrepakerfinu eða reglum um tímabil lyfjakaupa svo að það hendi ekki að fjölskyldur þurfi að greiða fullt verð til að leysa út lyf allra í sama mánuði — það er rétt sem hv. þingmaður kemur hér inn á að þegar fleiri en einn aðili í stórri fjölskyldu er að kaupa lyf þá skiptir þetta mjög miklu máli — og til að mynda hvort það kæmi til greina að kveða á um hámark. Enn og aftur þá liggja upplýsingar ekki fyrir hjá Sjúkratryggingum um hversu margar fjölskyldur hefja tímabil lyfjakaupa í sama mánuði. Tímabil lyfjakaupa miðast hins vegar við þetta 12 mánaða tímabil en ekki almanaksárið, sem er til bóta. Það eru því minni líkur á því að tímabil lyfjakaupa fjölskyldumeðlima hefjist á sama tíma. Það myndi augljóslega gera þetta erfiðara ef miðað væri við almanaksárið. Þá væri auðvitað alltaf upphaf tímabils janúarmánuður og þá myndi það leggjast jafnt og vera íþyngjandi. Ef sett væri hámark á greiðsluþátttöku einnar fjölskyldu í mánuði er hætta á mismunun eftir fjölskyldustærðum. Einstætt foreldri myndi þá greiða hlutfallslega meira fyrir lyf en hjón og sambúðarfólk eins og kerfið er upp byggt. Við höfum oft rætt það hér í þessum þingsal — kannski ekki oft en það hefur komið til umræðu, m.a. held ég að hv. þingmaður hafi örugglega gert það, ég bara gef mér það miðað við hvað hann er duglegur að ræða þessi mál — að taka eitthvert samhengi í greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu og vera ekki að greina þetta í kerfi. Það gæti verið að það þyrfti að fara bara í heildarendurskoðun á þessu en við höfum auðvitað að verið með það að markmiði að draga úr greiðsluþátttöku, bæði almennt í heilbrigðisþjónustu og lyfjum.

Í þriðja lagi: Hvers vegna er ekki hægt að dreifa kostnaðinum betur í ljósi þess að t.d. hjón með tvö börn sem öll hefja nýtt tímabil lyfjakaupa í sama mánuði geta þurft að greiða úr eigin vasa án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og jafnvel meira? Þarna varpar hv. þingmaður fram fjárhæðinni 66.000 kr. Ég fékk upplýsingar um að það væru 55.000 kr. Það skiptir ekki öllu máli enda er lyfjaverð sífellt að hækka eins og hv. þingmaður benti á. Það er heimild til staðar fyrir einstakling að dreifa kostnaði vegna lyfjakaupa honum að kostnaðarlausu. Undir þetta falla einstaklingar sem eiga í erfiðleikum með að greiða lyf vegna lágra tekna eða óvænts lyfjakostnaðar. Einstaklingur þarf að gera samning við lyfsala um greiðsludreifingu lyfja sem eru með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Það er sem sagt hægt að dreifa kostnaði á tvær til þrjár greiðslur í byrjun 12 mánaða greiðslutímabils til að létta undir. Hér er átt við þann lyfjakostnað sem greiddur er áður en til þátttöku Sjúkratrygginga kemur. Þarna þarf maður aðeins að lesa — ég gerði mér far um að lesa, bara til að átta mig á þessu — á milli Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga. Þær fjárhæðir sem þessi heimild miðar við eru 11.000 kr. fyrir börn, ungmenni aldraðra og öryrkja og 22.000 kr. fyrir aðra sjúkratryggða.

Ég er kominn á þá skoðun eftir þessa fínu fyrirspurn að taka upp heildarendurskoðun á greiðsluþátttöku en halda áfram með það markmið að draga úr greiðsluþátttöku sem vissulega hefur verið markmið og stefna þessarar ríkisstjórnar.