Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

lyfjakostnaður og tímabil lyfjakaupa.

674. mál
[17:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa fyrirspurn og þakka hæstv. ráðherra fyrir boða úrbætur í anda þess sem hér er spurt um, vegna þess að þó að tölvukerfi sjúkratrygginga nái kannski ekki að töfra fram þá stöðu sem margt fólk býr við, að þurfa að neita sér um þann þátt heilbrigðisþjónustu sem lyfjakaup eru, þá eigum við fullt af tölum sem sýna það annars staðar. Ég fletti t.d. upp hérna ágætri könnun sem Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, gerði fyrir ASÍ og BSRB og þar kemur fram að tæp 7% fólks hafa neitað sér um að leysa út lyf. Þarna er gæðunum alls ekki jafnt skipt. Það slagar hátt í fimmtung í hópi einhleyps fólks og einstæðra foreldra sem neitar sér um að leysa út lyf. Þannig að þessi hugmynd, sem hefur náttúrlega verið margoft rædd frá því að þetta ágæta þak var sett á greiðsluþátttöku einstaklinga um einhvers konar sveiflujöfnun þannig að fólk fái ekki á sig höggin af fullri greiðsluþátttöku þegar það er að byrja nýtt tímabil, er eitthvað sem ég fagna að ráðherra sé greinilega opinn fyrir að skoða.