Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

lyfjakostnaður og tímabil lyfjakaupa.

674. mál
[17:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir hans innlegg í þetta mál. Ég vona svo heitt og innilega að það verði tekið á þessu vegna þess að það er sárara en tárum taki að verða vitni að því og heyra í fólki sem segir frá því, kannski einstæðir foreldrar sem standa alveg ráðþrota í apóteki og geta ekki leyst út lyfin sín. Síðan hefur maður líka heyrt um aldrað fólk sem er í þessari aðstöðu. Það er auðvitað engin lausn og það er eiginlega öfug lausn að koma fólki í þá aðstöðu að það fái ekki lyfin sín vegna þess að það hlýtur að bitna á heilbrigðiskerfinu með margföldum þunga ef fólkið getur ekki tekið lífsnauðsynleg lyf sín. Og hvers vegna segi ég það? Við verðum eiginlega að stefna að því, og eigum að gera það, að sjá til þess að þeir sem eru í verstu aðstæðunum og eru að reyna að lifa af lífeyrislaunum í almannatryggingakerfinu og lægstu laununum, að það fólk lendi aldrei í þeirri aðstöðu að standa frammi fyrir því að þurfa að segja: Heyrðu, bíddu, ég hef ekki efni á lyfjum. Þó að einstaklingar hugsi kannski með sér: „Ókei, ég þarf ekki á þessum lyfjum að halda,“ fullorðnir einstaklingar, þá getum við ekki leyft okkur að þeir séu í þessari aðstöðu og allra síst að börn séu í þeirri aðstöðu að foreldrarnir hafi ekki efni á að leysa út lyf fyrir börn. Þetta eru ekki miklar upphæðir. Við erum að vísu með lyfjastyrki inni í heilbrigðiskerfinu en það er svolítið flókið kerfi. Ég held að þar væri líka hægt að grípa inn í gegnum Tryggingastofnun. Ég spyr ráðherra hvort hann vilji kynna sér það líka. Þetta er flókið, það er boðið upp á umsóknir um lyfjastyrk en þetta svo óljóst og einhvern veginn eins og það sé bara matskeið og það er ekki gott (Forseti hringir.) þegar fólk ætlar að fara þarna inn og leita sér að lyfjastyrk.