Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[16:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á mjög mikilvægan þátt. Við upplifum það oft í okkar kerfum og á fjölmörgum sviðum að það er tilhneiging til þess að vísa á næsta aðila og af því að hv. þingmaður er reyndur maður úr sveitarstjórnarmálum þekkjum við þessi gráu svæði sem við erum alltaf að ræða og jafnvel gerist þetta á milli ráðuneyta, því miður. Þess vegna er svarið hér í þessu verklagi teymisnálgun, þannig að það verði með faglega breiðum stuðningi komið til móts við stöðu þolandans, allt eftir því í hverju þetta ofbeldi felst. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg nálgun í þessu verklagi ef við ætlum að ná utan um þetta á forsendum þolandans. Eins og hv. þingmaður benti á getur staðan verið mjög mismunandi. Það er læknir, eðlilega, og hjúkrunarfræðingur, það er félagsfræðingur og það er sálfræðingur og aðili innan geðþjónustu sem metur hvernig þolendur ná að vinna úr ofbeldinu og að því verði fylgt eftir, það er mjög mikilvægt, og boðin þá meðferð við áfallastreitu ef það atvikast þannig. Ef um kynferðisbrot er að ræða mun þolandinn einnig verða settur í samband við lögmann. Þannig að það er á breiddina sem stuðningurinn er við þolandann, svo að við lendum einmitt ekki í þeirri gryfju að fara að vísa á stofnanir eða að ráðleggja að leita hingað eða þangað. Það er bara teymi, óháð búsetu, óháð því hvar þú kemur og færð þjónustu, sem tekur utan um þig og fylgir þér eftir. Og eins tengist þetta því að ef félagsráðgjafinn metur það svo að það þurfi að tilkynna til barnaverndar þá fær viðkomandi stuðning við það ferli að leita inn í nærumhverfið. Þannig að ég held að þetta sé, og þess vegna ítreka ég það, jafn mikilvægt lagabreytingunni sem við erum að fjalla um.