Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[17:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður stóðst auðvitað ekki mátið að fara inn á þessa línu og tala um hvort ráðherrann réði raunverulega nokkrum sköpuðum hlut um þetta. Ég veit að hv. þingmaður veit betur. Ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það hvernig þessi stefnumótandi hringrás þarf að vera, hvert við þurfum að komast; kostnaðarmat, ábatagreining, stefnumótun og aðgerðaáætlun eins og hér er, aðgerðaáætlun sem er að fylgja sem hluti af þeirri fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem við ræðum hér á hverju ári og ég er sannfærður um að við komumst þangað. Auðvitað er það þannig í sumum verkefnum, þegar þau reynast fjárfrek, það eru fleiri en einn aðili sem þurfa að koma að því, til að mynda þekkingarsetrið sem hv. þingmaður kom inn á, þá er það á ábyrgð Landspítala og háskóla og þá þarf eðlilega sá er hér stendur að treysta á samráð og samvinnu við þá aðila. Það kann vel að vera að tímaás eða kostnaðarmat standist ekki eða að það þurfi að ýta því til eða hliðra til eins og við þekkjum. En það er þó betra að hafa það til staðar og vera búinn að koma því fyrir.

Af því að hv. þingmaður kom inn á húsnæðismálin er sérstakur hópur búinn að taka utan um það verkefni og er þá til rýni núna í NLSH ohf.-stýrihópi af því að geðdeildarbyggingin við Hringbraut og húsnæði Klepps, það er búið að útkljá það, er ekki framtíðarhúsnæði (Forseti hringir.) sem hentar þróaðri þjónustu eins og við erum að horfa á inn í framtíðina.